Nálin er svo holl

Greinar

“Nálin er svo holl fyrir sauðféð”, hugsa mývetnskir landeyðingarmenn og ráku fé sitt á fjall í síðustu viku, þrátt fyrir eindregin og ákveðin tilmæli Landgræðslu ríkisins um að gera það ekki. Þessi upprekstur er í stíl við fyrri yfirgang þessara landeyðingarmanna.

Árum saman hafa landeyðingarmenn Mývatnssveitar hunzað tilmæli Landgræðslunnar um að reka ekki á fjall í byrjun júní, heilum mánuði á undan öðrum sauðfjáreigendum í landinu. Þeir siga kindum sínum á melgresið, sem Landgræðslan hefur reynt að rækta.

Undanfarin ár hefur Landgræðslan varið miklum peningum af almannafé til að vernda gróður og auka hann í heimalöndum þessara landsins mestu landeyðingarmanna. Með þessu hefur verið reynt að auðvelda þeim að halda fé sínu í heimalöndum að sumarlagi.

Á Suðurlandi er samstarf bænda og Landgræðslunnar orðið svo gott, að nú liggur fyrir að friða algerlega alla afrétti svæðisins. Þegar hefur verið samið um þetta í mörgum hreppum. Afleiðingin er sú, að þessir afréttir eru ekki lengur taldir í eyðingarhættu.

Þeim fáu bændum, sem enn nota afrétti sunnanlands, dettur ekki í hug að reka á fjall í byrjun júní eins og mývetnskir landeyðingarmenn gera. Sunnlendingar skilja, að þeir verða að leggja eitthvað af mörkum á móti stuðningi Landgræðslunnar við verndun haga.

Vorbeit landeyðingarmanna Mývatnssveitar leiðir til þess, að melgresið fær ekki tækifæri til að sá sér eins og til er ætlazt. Starf Landgræðslunnar á þessum slóðum er að mestu unnið fyrir gýg, enda er afrétturinn eitt mesta landeyðingarsvæði landsins um þessar mundir.

Að upprekstri landeyðingarmanna Mývatnssveitar standa ráðunautur Búnaðarfélagsins, gróðurverndarnefnd Suður-Þingeyjarsýslu, landbúnaðarnefnd og hreppsnefnd Skútustaðahrepps. Þessir aðilar eru sammála um, að unnt sé að reka 5000-6000 fjár á sandinn.

Um þetta sagði Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri í viðtali við DV í síðustu viku: “Í raun og veru eru þessi mellönd ekki beitarhæf, hvorki núna, 4. júní eða 4. júlí eða yfirhöfuð. Afrétturinn er mjög illa farinn og landið mjög þurrt eftir þurrkana í vetur og vor.”

Í sama viðtali viðurkenndi landgræðslustjóri, að heimilt væri að stöðva yfirgang landeyðingarmanna með valdboði, en betra væri að fara að mönnum með góðu. Samt sýnir reynslan því miður, að endurtekin linkind Landgræðslunnar hefur espað þá til óhæfunnar.

Árum saman hefur Landgræðslan kvartað og kveinað út af framferði landeyðingarmanna Mývatnssveitar, en haft hendur í vösum um leið. Samt ber henni að leita lögregluverndar og síðan að höfða mál gegn landeyðingarmönnum, sem hafa að engu kvart hennar og kvein.

Aðeins í sumum tilvikum gildir sú formúla, að betra sé að fara með góðu að vandræðamönnum, svo að þeir bæti ráð sitt. Í öðrum tilvikum líta slíkir á tilraunir af því tagi sem veikleikamerki óvinarins og óbeina hvatningu um að láta þær sem vind um eyru þjóta.

Landgræðslan hefur árum saman gengið of langt í undanlátssemi gagnvart landeyðingarmönnum Mývatnssveitar. Og nú má forstjóri hennar ekki neita að beita leyfilegum stöðvunargerðum, þegar hann segir austurafrétt Mývetninga ekki vera beitarhæfan.

Í Mývatnssveit eru landeyðingarmenn að gefa skít í alla þjóðina og tilraunir hennar til að verjast vaxandi landeyðingu á einu viðkvæmasta svæði landsins.

Jónas Kristjánsson

DV