Sandur er höfðinu verstur

Greinar

Að þessu sinni hafa helztu fyrirmenn stjórnmála og þrýstihópa tekið ábyrgari afstöðu til hugmynda um 40% niðurskurð þorskveiða á næsta fiskveiðiári en þjóðin sjálf hefur gert. Flestir ráðamenn á þessum sviðum gera ráð fyrir, að farið verði eftir ábendingum fræðimanna.

Þjóðin er hins vegar skipt í afstöðu sinni. Samkvæmt skoðanakönnun DV vill þriðjungur hennar og helmingur þeirra, sem á annað borð taka afstöðu, stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekkert sé. Afstaðan er í stíl við annað fyrirhyggjuleysi og göslarahátt Íslendinga.

“Þetta er tóm vitleysa, það er nóg af fiski í sjónum,” segja menn bara, alveg eins og bændur í Mývatnssveit segja nóg af fæðu á fjöllum, þegar þeir reka sauðfé sitt í í sandbyl í júníbyrjun á rofabörð og sandöldur Austurafréttar, gegn þrábeiðni forstjóra Landgræðslunnar.

Áhugaleysið á hruni þorskstofnsins er stutt kenningum nokkurra skipstjórnarmanna um, að togararallið gefi ekki rétta mynd, af því að togarar hafi hrakið þorskinn á grunnslóð. Einnig kenningum eins fræðimanns um, að grisja þurfi smáfisk í sjó eins og í vötnum.

Kenningar af þessu tagi eru fárra manna sérvizka í heimi fræðimanna á þessu sviði og geta varla orðið undirstaða velferðar heillar þjóðar. Þar á ofan er áhættusamara að fara eftir kenningum, sem geta leitt til ofveiði, en kenningum, sem geta leitt til vanveiði.

Í öðru tilvikinu, þegar rangt hefur reynzt að taka mark á tillögu um 40% niðurskurð, er hægt að skipta um skoðun. Í hinu tilvikinu, þegar rangt hefur reynzt að taka ekki mark á henni, er ekki hægt að skipta um skoðun. Þorskurinn verður þá einfaldlega horfinn.

Þegar Hafrannsóknastofnunin hefur skilað sinni tillögu og erlendur sérfræðingur sjávarútvegsráðherra er búinn að meta hana, munum við standa andspænis niðurskurði, sem verður nálægt þeim 40%, sem ráðgjafarnefnd Alþjóða hafrannsóknaráðsins mælti með.

Sem betur fer ætla fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs að fylgja niðurstöðunni. Forustumenn útgerðarmanna hafa raunar alla sögu kvótakerfisins verið harðari á því en stjórnvöld landsins, að við yrðum að fara eftir fræðunum, því að við hefðum ekkert betra en þau.

Enginn landsfaðir hefur að þessu sinni sett fram þjóðhættuleg viðhorf á borð við þau, sem Steingrímur Hermannsson setti fram á sínum tíma, þegar hanns sagðist gera greinarmun á því, sem þorskurinn þolir og þjóðin þolir. Það er nefnilega enginn munur á þessu tvennu.

Það, sem er gott fyrir þorskinn, er gott fyrir þjóðina. Þótt þungbært sé að tapa 12-14 milljarða tekjum á ári í nokkur ár, er það skárra en að éta útsæðið og sitja uppi sem næsta þorsklaus þjóð. Ef við hlífum útsæðinu, getum við vonazt eftir betri tíð undir aldamót.

Fyrirmönnum þjóðarinnar hefur svo sem verið bent á, hvar spara megi þessa 12-14 milljarða, án þess að herða sultarólina um of. Það má gera með því að minnka verndun landbúnaðar, sem nemur árlega 12 milljörðum í innflutningsbanni og 8 milljörðum á ríkisfjárlögum.

En þjóðinn vill ekki spara þessa 20 milljarða og verður því að herða sultarólina. Um annað er ekki að ræða. Skera verður kvóta skipa eftir einhverju kerfi, sem þrýstihópar semja um. Síðan verður víðtækt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot og hrun ýmissa sveitarfélaga.

Allt er þetta vont og snöggtum verra en uppgjörið við landbúnaðinn, en mun skárra en að fara að ráði þriðjungs þjóðarinnar og stinga höfðinu í sandinn.

Jónas Kristjánsson

DV