Nenna enn að rífast

Greinar

Svo virðist sem margir telji skipta máli að vera í Alþýðuflokknum og taka virkan þátt í störfum hans. Mikil átök um málefni einkenndu flokksþing hans um síðustu helgi, en helztu forustumenn hinna ólíku sjónarmiða síðan kosnir til óbreyttra trúnaðarstarfa.

Svo mikill var ágreiningurinn, að um tíma þurfti að stöðva þinghald meðan samningafundir stóðu yfir í hliðarsölum, og í annan tíma stóð til að loka þinginu í einn dag fyrir fjölmiðlum. Allt fór þó á þann veg, að menn greiddu hver öðrum atkvæði í rússneskri kosningu.

Málefnaágreiningurinn þarf ekki að skaða flokkinn neitt. Jafnvel er hugsanlegt, að hann dragi athygli að flokknum sem hugmyndafræðilegum skurðpunkti í stjórnmálasögu síðustu ára, þar sem tekist er á um mikilvæg atriði á borð við umfang velferðarkerfisins.

Að vísu verður að vara við að meta málefni of mikils. Stjórnmál snúast miklu fremur um menn og völd, þar sem málefnum er teflt fram og aftur. Að loknum flokksþingum setjast menn í ráðherrastóla, fara að reikna dagpeninga sína og finna vinum sínum stöður.

Samt er ljóst, að burðarlið Alþýðuflokksins hefur metið málefni nógu mikils til að nenna að rífast um þau á flokksþingi. Það er merki þess, að menn reikni með, að þeim verði ekki stungið undir stól milli málþinga, þótt ótal dæmi séu einmitt um þau örlög málefna.

Í stórum dráttum tók Alþýðuflokkurinn mælanlega sveigju í átt frá velferðarstefnu til hagfræðihyggju. Hann sætti sig við atlögu ríkisstjórnarinnar að miklum kostnaði í heilbrigðis- og menntamálum og fól henni, með fyrirvörum þó, að halda áfram á sömu braut.

Hagfræðihyggja flokksins er enn mjög óskýr. Engin marktæk niðurstaða fékkst í sjávarútvegsmálum. Í þess stað var endurtekin gömul hómilía um, að banna þurfi útflutning á ferskum og dýrum fiski til að efla atvinnubótavinnu við framleiðslu á ódýrri og frystri fangafæðu.

Ekki komu fram nein merki þess, að Alþýðuflokkurinn hyggist taka á tuttugu milljarða árlegum kostnaði við hefðbundinn landbúnað. Hann neitar sér og þjóðinni um sparnað til að vega á móti tólf milljarða þorsktjóni og átta milljarða fjárþörf til velferðar.

Ekki þarf að hrósa Alþýðuflokknum fyrir þau málefni, sem urðu ofan á eða biðu lægri hlut á flokksþinginu. Hér er aðeins verið að hrósa honum fyrir að rífast yfirleitt um málefni á tímabili stjórnmálasögunnar, sem einkennist fremur af öðru, baráttu um menn og völd.

Jónarnir voru sigurvegarar þingsins. Þeir notuðu fréttir af milljarða niðurskurði þorskveiða til að auðkenna tillögur Jóhönnu um milljarða aukningu velferðar sem tímaskekkju. Í hnotskurn má lýsa þinginu á þann hátt, að þar hafi Jónar lamið Jóhönnu með þorski.

En Jóhanna Sigurðardóttir mun áfram verða í stjórnarandstöðu í ríkisstjórninni. Hún mun halda áfram að verja sín málefni með klóm og kjafti og vera afskiptalaus um önnur mál. Hennar stíll mun áfram vera annar en hinna ráðherranna, án flottra bíla og stöðutákna.

Að öðru leyti hafa ráðherrar Alþýðuflokksins fengið heimild flokksþingsins til að halda áfram stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún mun mæta áföllum með því að ganga í evrópskt efnahagssvæði og með því að auka enn bilið milli ríkra og fátækra, en ekki skera upp efnahagslífið.

Merkilegast er, að rúmlega hundrað manns skuli telja mikilvægt að verja rúmlega heilli helgi til að takast siðmenningarlega á með nokkrum tilþrifum um málefni.

Jónas Kristjánsson

DV