Þjóðaratkvæðagreiðsla

Greinar

Forráðamenn þjóða eiga ekki að aka hraðar en umbjóðendur þeirra í átt til stjórnmálasamstarfs við aðrar þjóðir og til afsals á hluta fullveldis. Þess vegna er skynsamlegt að efna á þessu ári til þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.

Skoðanakannanir benda til, að hér á landi sé ekki mikill stuðningur við aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Ef hinum spurðu er sérstaklega bent á, að þetta fyrirbæri sé annað en Evrópusamfélagið, næst um helmings stuðningur við efnahagssvæðið, annars minni.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópska efnahagssvæðið mun auka þekkingu manna á þessum fyrirbærum. Fleiri munu átta sig á, að efnahagssvæðið er fyrst og fremst svæði frjálsra viðskipta, en Evrópusamfélagið stefnir að sameiningu Evrópu í eins konar yfirríki.

Málið er að vísu ekki svona einfalt. Evrópska efnahagssvæðið er ekki bara frjáls markaður, heldur felur einnig í sér þvingun til samstarfs um lög og reglugerðir, svo og framsal á málamyndakvóta til karfaveiða. Slík atriði kunna að fela í sér stjórnarskrárbrot.

Einnig skiptir máli, að umdeildir eru nokkrir þættir hins frjálsa markaðar, einkum aukið atvinnufrelsi útlendinga og aukið frelsi þeirra til kaupa á fyrirtækjum, mannvirkjum og landi, svo sem jörðum. Margir eru ekki sáttir við frjálsan markað á þessum sviðum.

Ef hægt verður í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu að koma af stað aukinni umræðu um þessi mál, sumpart vitrænni umræðu, getur það leitt til þess, að menn greini skarpar milli Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusamfélagsins og sætti sig betur við hið fyrra.

Við sjáum, að það var óheillaráð að draga Tékka og Slóvaka inn í sameiginlegt ríki. Enn ógæfulegra var að draga margar Balkanþjóðir inn í eina Júgóslavíu. Í slíkum málum ber forráðamönnum skylda til að leita ráða hjá umbjóðendum sínum, það er kjósendum í landinu.

Danir fóru rétta leið, þegar þeir efndu til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja Maastricht-stjórnarskrá fyrir Evrópusamfélagið, sem gengur lengra en hin fyrri Rómar-stjórnarskrá þess. Þeir tryggðu, að ekki yrði gengið lengra en almenningur í landinu gat sætt sig við.

Niðurstaðan var ekki aðeins sú, að Danir höfnuðu frekari samruna. Einnig kom í ljós, að upp risu öfl í öðrum ríkjum Evrópusamfélagsins, svo sem í Bretlandi og Þýzkalandi, og lýstu efasemdum um, að fyrirhugaður samruni Evrópu væri í þágu einstakra þjóða álfunnar.

Sameining Evrópu er mál fámennrar yfirstéttar ráðherra og mandarína, sem hafa verið að efla skrifræði í Bruxelles, undir forustu miðstýringarsinnans Jacques Delors. Efagjarn almenningur er meira eða minna ókunnugur þessu bralli hinnar evrópsku yfirstéttar.

Við eigum að forðast slík vandamál. Landsfeður eiga hvorki að semja um hugsanleg stjórnarskrárbrot, það er framsal fullveldis til útlendra stofnana, né semja um markaðsfrelsi, er margir túlka sem framsal fullveldis, nema leita ráða almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mikilvægt er, að trúnaður haldist og að ráðamenn fái skýrt umboð til að undirrita samkomulag um evrópskt efnahagssvæði. Það gerist með nýrri umræðu, þar sem meirihluti kjósenda sannfærist um, að efnahagssvæðið sé okkur gagnlegt og sé annað en Evrópusamfélagið.

Íslendingum mun reynast bezt að taka strax hina lýðræðislegu áhættu með því að afgreiða í þjóðaratkvæðagreiðslu þetta jaðarmál stjórnarskrárinnar.

Jónas Kristjánsson

DV