Vaxandi gengi dagblaða

Greinar

Lestur dagblaða eykst, þrátt fyrir aukið framboð dægrastyttingar í fjölmiðlaformi. Um nokkurt skeið hafa fjölmiðlakannanir sýnt aukinn lestur DV og Morgunblaðsins. Nú síðast hefur Gallup skráð marktæka aukningu á tímabilinu frá marz til júní á þessu ári.

Ef miðað er við vikulegan lestur, hefur hann aukizt úr 72% í 77% hjá DV á þessu þriggja mánaða tímabili og úr 73% í 75% hjá Morgunblaðinu. Hliðstæð aukning kemur fram í daglegum lestri og í lestri yfir lengri tímabil, svo sem heilan mánuð, þrjá mánuði og heilt ár.

Þessar tölur sýna, að stóru dagblöðin tvö ná miklu betur til þjóðarinnar en þekkist hjá allra stærstu dagblöðum í öðrum fullvalda ríkjum. Eflaust ræður fækkun lítilla dagblaða og samdráttur í útgerð þeirra einhverju um bætta stöðu stóru blaðanna tveggja hér á landi.

Jafnvægi í lestri blaðanna batnar í sífellu. DV er nú komið yfir í mælingu Gallups á árlegum, mánaðarlegum og vikulegum lestri, en Morgunblaðið er enn hærra í daglegum lestri. Munur þessara mælinga byggist á, að lesendahópur DV er breytilegri en Morgunblaðsins.

Fréttirnar eru það, sem mest er lesið í dagblöðunum, enda eru þær veigamesti þáttur efnis þeirra. Á hverjum degi les helmingur þjóðarinnar eitthvað í fréttum Morgunblaðsins og einnig helmingur þjóðarinnar eitthvað í fréttum DV. Þetta eru mest notuðu fréttamiðlarnir.

Fréttirnar eru líka það, sem mest er notað í ljósvakamiðlunum. Um 39% sjá að jafnaði eitthvað úr fréttum ríkissjónvarpsins, 30% úr fréttum Stöðvar 2, 35% úr hádegisfréttum útvarps og 24% úr kvöldfréttum þess. Þetta sýnir minni útbreiðslu en frétta dagblaðanna.

Innan ljósvakaheimsins hefur vegur útvarps farið vaxandi að undanförnu, en sjónvarpsins dalað, einkum vegna minni notkunar á ríkissjónvarpinu. Allt stefnir þetta að traustu jafnvægi í samkeppni tveggja dagblaða, tveggja sjónvarpsrása og þriggja-fjögurra útvarpsrása.

Fyrir nokkrum árum var spáð, að meira eða minna svarthvít dagblöð mundu falla í skugga litskrúðugra ljósvakamiðla, samfara mikilli útbreiðslu í notkun myndbanda og umtalsverðri grósku í stofnun nýrra útvarpsstöðva. Hið þveröfuga hefur í rauninni gerzt.

Fólk veit um ótvíræða kosti prentaðra dagblaða. Lesendur geta gripið þau, þegar þeim sýnist, og eru ekki háðir skeiðklukku ljósvakamiðlanna. Lesendur geta lesið blöðin afturábak eða áfram eða á hvern þann hátt, sem þeim sýnist, og eru ekki háðir fastri dagskrá.

Ekki skiptir minna máli, að lesendur geta staðnæmzt við það efni eða þá auglýsingu í dagblaði, sem höfðar til þeirra, og gefið sér góðan tíma til rækilegs lestrar. Þeir eru ekki háðir hraðanum, sem þeytir efni og auglýsingum inn og út af sjónvarpsskjá og útvarpshátalara.

Lesendur dagblaða hafa miklu meira valfrelsi í notkun þessara fjölmiðla en áhorfendur sjónvarps og hlustendur útvarps hafa í notkun sinna fjölmiðla. Þessi mikli munur skiptir ekki minna máli nú á dögum en hann gerði, þegar ljósvakamiðlar ruddu sér til rúms.

Velgengni stóru blaðanna má ennfremur rekja að nokkru til þess, að þau hafa mætt nýjum tímum með margvíslegum breytingum á efnisvali og efnismeðferð. Ef menn fletta DV eða Morgunblaðinu frá því fyrir tíu árum, velkjast þeir ekki í vafa um breytingarnar.

Dagblöðin hagnast á þessu, en mest þó lesendur þeirra, sem fá nú miklu betri og aðgengilegri dagblöð en þeir fengu áður fyrir sama raungildi peninganna.

Jónas Kristjánsson

DV