Hugsjónir í hrærigraut

Greinar

Með aðstoð barna gróðursetur forseti Íslands tré á ferðum sínum um landið. Þessi athöfn er orðin táknræn fyrir forsetaembættið, eins konar helgisiður. Hún kemur þeirri hugmynd á framfæri við börn og fullorðna, að skógrækt flytji þjóðina inn í framtíðina.

Þessi skilaboð renna inn í safn misvísandi upplýsinga um stöðu og stefnu okkar í skógrækt, landgræðslu og náttúruvernd. Á sama tíma er hópur landgræðslufólks önnum kafinn við að rífa lúpínu í þjóðgarði Skaftafells. Og Mývetningar slá skjaldborg um beit á eyðisandi.

Fyrir allmörgum áratugum sáu menn Ísland fyrir sér sem landbúnaðarland með rennisléttum túnum upp í miðjar hlíðar. Grafnir voru skurðir út og suður til að eyðileggja mýrar, sem menn sakna nú. Farið er tala um, að moka þurfi niður í þessa skurði til að vernda land.

Landþurrkun er ekki lengur talin göfug, heldur bein árás á lífríki landsins, meira að segja án nokkurs efnahagslegs tilgangs, því að þjóðin þarf ekki á öllum sínum túnum að halda. Verðmætamatið breytist svo snöggt, að menn vita ekki, hvaðan á sig stendur veðrið.

Til skamms tíma fögnuðu menn lúpínu sem harðgerðri jurt, er legði undir sig sanda og mela, breytti yfirborði þeirra í jarðveg og léti síðan öðrum jurtum eftir landið. Í þessu skyni hefur lúpínu verið plantað víða á skógræktarsvæðum, svo sem í Skaftafelli.

Nú er kominn upp sá flötur, að þetta sé ekki svona einfalt. Lúpínan eigi það til að ráðast á annan gróður og kaffæra hann. Ennfremur gefi hún stundum ekki eftir fyrir gróðri, sem eigi að einkenna staðinn. Allt í einu er í náttúruverndarskyni farið að rífa lúpínu.

Til skamms tíma notaði skógræktin verndarsvæði sín miskunnarlaust sem skjólgarða fyrir barrtré. Nú er komið í ljós, að margir telja eðlilegt að rífa þessi barrtré svo að náttúrulegir birkirunnar svæðisins geti betur notið sín. Áratuga skógrækt er afskrifuð sem skaðleg.

Landgræðsla hefur áratugum saman haft það verkefni að breyta svörtu í grænt. Uppblástursland er girt og friðað, sáð í það fræjum og áburði. Nú vilja sumir fara að vernda sandinn fyrir landgræðslunni, meðal annars vegna þess, að ferðamenn vilji heldur sjá sand!

Menn vita ekki lengur, við hvað eigi að miða í umhverfismálum landsins. Á að rækta það eða á að varðveita það í einhverju fyrra ástandi og þá í hvaða? Á að miða við síðustu aldamót eða upphaf landnámsaldar, þegar land allt var viði vaxið milli fjalls og fjöru?

Nefndir, ráð og bændur í Mývatnssveit standa í moldroki að rekstri sauðfjár á eyðisanda gegn eindregnum andmælum Landgræðslu ríkisins, sem lengi hefur tekið bændur silkihönzkum. Nú segir hún þennan afrétt ekki þola neina beit, hvorki nú né í náinni framtíð.

Hinir mývetnsku landeyðingarmenn eru staffírugir og hóta andmælendum sínum meiðyrðamálum. Þeir eru í rauninni að verja afar skammsýna stundarhagsmuni, því að almennt ætti að vera í langtímaþágu bænda, að gróður fari vaxandi í úthögum þeirra og afréttum.

Meðan mývetnskir landeyðingarmenn berjast um með rollur sínar í moldrokinu, er eyðisandurinn kominn að jaðri Dimmuborga og hótar að kaffæra náttúruundrið. Hvar er sá vandi í röð á óskalista þeirra, sem settir eru til að hugsa fyrir okkur um mál af þessu tagi?

Þjóðin þarf að ákveða, hvað skuli snúa upp og hvað niður í skógrækt, landgræðslu, landvernd og náttúruvernd, svo að hugur fylgi máli í opinberum helgisiðum.

Jónas Kristjánsson

DV