Enn eitt bandalagið

Greinar

Ríkisstjórnin ætlar í alvöru að hefja viðræður um aukaaðild Íslands að misheppnuðum hernaðararmi Evrópusamfélagsins, svokölluðu Vestur-Evrópusambandi. Hún virðist telja æskilegt, að Ísland fái að taka þátt í hugsanlegu varnarsamstarfi Evrópusamfélagsins.

Draga má í efa, að Ísland hafi gagn af frekari þátttöku í hernaðarbandalögum en nú er. Við erum í Atlantshafsbandalaginu, sem meira eða minna starfar á sama sviði og Vestur-Evrópusambandinu er ætlað að starfa, ef Evrópusamfélaginu tekst að blása lífi í þetta gamla lík.

Vestur-Evrópusambandið var stofnað 1948 af þeim ríkjum, sem síðar urðu kjarni Evrópusamfélagsins. Þetta hernaðarbandalag varð aldrei nema nafnið eitt, því að Atlantshafsbandalagið var stofnað og tók við hlutverkinu, sem Vestur-Evrópusambandinu var ætlað.

Við höfðum hag af Atlantshafsbandalaginu, þegar vestrið og austrið börðust um Vestur-Evrópu. Nú eru Sovétríkin horfin af sjónarsviðinu og við hafa tekið staðbundin átök í útjaðri Evrópu, svo sem á Balkanskaga, í Kákasusfjöllum og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Vafasamt er, að Ísland eða Íslendingar hafi nokkurt gagn af rétti eða skyldum til að taka þátt í hugsanlegum afskiptum Evrópusamfélagsins af átökum á þessum svæðum. Miklu líklegra er, að okkur farnist vel í hernaðarlegri einangrun í fremur friðsælum norðurhöfum.

Við höfum átt nógu erfitt með að ná innri samstöðu þjóðarinnar um aðildina að Atlantshafsbandalaginu, þar sem við tókum víðtæka afstöðu með frelsi gegn þrælkun. Vafasamt er að við eigum núna erindi í staðbundin ættbálkastríð á fjarlægasta jaðri Evrópu.

Ríkisstjórninni liggur á í þessu máli. Hún slengdi því framan í utanríkismálanefnd Alþingis á miðvikudaginn í þessari viku. Hún sagðist þá hafa frest fram á fimmtudag í næstu viku til að sækja um aukaaðild okkar að andvana fæddum hernaðararmi Evrópusamfélagsins.

Þetta er of skammur tími til að taka ákvörðun um, hvort við óskum eftir þátttöku í staðbundnum ófriði á fjarlægum slóðum, á Balkanskaga, í Kákasusfjöllum eða fyrir botni Miðjarðarhafs. Ákvörðun um slíka aðild má ekki taka undir þrýstingi frá tifi í skeiðklukku.

Að vísu höfum við frest til áramóta til að hætta við umsóknina, þótt hún verði lögð fram á fimmtudaginn. En ríkisstjórninni er því miður ekki treystandi til að ganga með hæfilegum efasemdum til viðræðnanna. Hún hefur farið og fer offari í evrópskri samstarfsþrá.

Við sjáum fordæmið í túlkun viðskiptaráðherra á niðurstöðu fjögurra lögmanna, sem ríkisstjórnin fékk til að meta, hvort samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði samræmdist stjórnarskránni. Hann segir beinlínis fjórmenningana jafngilda stjórnlagadómstóli.

Fjórmenningar, sem ríkisstjórn velur, eru enginn stjórnlagadómstóll. Þeir eru heldur ekki óvefengjanlegir sem nefnd, því að til eru gagnstæðar niðurstöður jafnmerkra lögmanna. Auk þess viðurkenna fjórmenningarnir, að um sé að ræða valdaafsal til útlanda.

Þjóðin er klofin í afstöðunni til Evrópska efnahagssvæðisins og andvíg beinni aðild að Evrópusamfélaginu. Hún mun áreiðanlega fyllast efa í garð aukaaðildar að hernaðararmi Evrópusamfélagsins, þegar hún hefur haft tíma til að átta sig á Evrópuþrá ráðherranna.

Eftir þrautagöngu okkar inn í Evrópska efnahagssvæðið er kominn tími til að gera hlé á valdaafsali, meðan þjóðin er að meta hina nýju stöðu sína.

Jónas Kristjánsson

DV