6. Downtown – Statue of Liberty

Borgarrölt

Ellis Island

Ellis Island, New York

Ellis Island

Frá Battery Park ganga ferjur yfir árnar Hudson River og East River. Meðal annars gengur ferja til Ellis Island, sem er vestarlega í Hudson River. Þar var áður innflytjendamiðstöð Bandaríkjanna. Allir þeir, sem flúðu sult og styrjaldir í Evrópu fóru þar í gegn til að fá heimild til að setjast að í sæluríki Bandaríkjanna.

Stöðin var lögð niður 1954 og er í niðurníðslu. Mikil hreyfing er í gangi við að safna USD 50 milljónum til að endurreisa hana sem safn og er viðgerðin raunar þegar hafin. Boðið er upp á leiðsögn fyrir ferðamenn.

Statue of Liberty

Liberty Statue, New York

Statue of Liberty

Meiri umferð er á ferjuleiðinni til Liberty Island, þar sem trónir frelsisstyttan, nýviðgerð og ljómandi. Hana hannaði franski listamaðurinn Bartholdi. Frakkar borguðu hana með samskotafé og gáfu Bandaríkjunum til minningar um sigurinn í frelsisstríðinu, sem Frakkar háðu með Bandaríkjamönnum gegn Bretum. Æ síðan hefur styttan verið tákn Bandaríkjanna og frelsis, kærkomið augnayndi öllum þeim, sem voru á leiðinni í innflytjendastöðina á Ellis Island.

Styttan er um 120 metra há og vegur 225 tonn. Erfitt er að ganga upp stigana, svo að bezt er að treysta á lyftuna fyrri helming leiðarinnar. Alls eru 22 hæðir upp í kórónu frelsisgyðjunnar. Þetta er pílagrímsför, sem allir sannir Bandaríkjamenn fara einu sinni á ævinni eins og Múhameðstrúarmenn til Mekka.

Frá Battery Park sigla ferjur líka til Staten Island. Þær sigla framhjá frelsisstyttunni. Þar sem farið kostar aðeins fáa tugi centa, bjóða þær ferjur upp á ódýrustu skoðunarferðina í borginni, með frábæru útsýni til bankahalla niðurbæjarins

Næstu skref