8. Downtown – South Street Seaport

Borgarrölt
South Street Seaport & Banking District, New York

South Street Seaport & Banking District

Fulton Market

Næst komum við að miklu húsi hins fræga fiskmarkaðar Fulton Market. Sjálfur heildsölu-fiskmarkaðurinn er í fullu fjöri eldsnemma — fyrir klukkan sex — á morgnana, þegar fáir ferðamenn eru á fótum, en við sólarupprás eru opnaðar í markaðsbyggingunni smábúðir, þar sem hægt er að kaupa margvíslegt góðgæti.

Smábúðirnar og veitingasalirnir eru á þremur hæðum. Þar eru sérverzlanir osta, fiskjar, kaffis, brauða, sultu, svo að dæmi séu nefnd, og matstaðir af ótal tagi, þar sem hægt er að fá smárétti margra þjóða.

South Street Seaport

Úti á bryggjunni við Fulton markaðinn hefur verið komið fyrir sjóminjasafni undir beru lofti. Það er eitt bezta dæmið um, hvernig hægt er að taka gömul hús og mannvirki, fríska þau upp og búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn. South Street Seaport er orðin einn helzti áfangastaður ferðamanna í New York.

Í höfninni eru sögufræg skip frá upphafi aldarinnar, svo sem teflutninga-seglskipið Peking og riggarinn Ambrose, svo og fljótandi viti. Í sjálfu nítjándu aldar bryggjuhúsinu á bryggju nr. 17 hefur verið komið fyrir fjölmörgum smáverzlunum, sem freista ferðamanna. Þar fæst allt frá tízkufötum yfir í hvalveiðibúnað. Þar eru líka veitingasalir og þaðan er ágætt útsýni yfir East River til Brooklyn-brúar og Brooklyn.

Allt er þetta úthald eins konar Disneyland, miðað við að létta pyngju ferðamanna og ekki verður betur séð en, að fórnardýrin séu hæstánægð.

Næstu skref