Suðvestanátt óskast

Greinar

Grínistar fara á kostum þessa dagana í gervi fræðimanna. Veðurfræðingur telur, að aukin suðvestanátt hafi meiri áhrif á nýliðun þorsks en stærð hrygningarstofnsins hafi. Annar telur, að Skeiðarárhlaup í byrjun árs skipti meira máli en stærð hrygningarstofnsins.

Erfitt verður að framfylgja þessum upplýsingum, þótt þær kunni í sjálfu sér að vera réttar. Stjórnmálamenn gætu í bjartsýni talið sér trú um, að bjarga megi þorskstofninum í vetur með vænni kjarnasprengingu í Vatnajökli, en torveldara verður að stjórna vindum.

Þeir, sem setja fram kenningar af þessu tagi, eru ekki að biðja um að vera teknir alvarlega. Kenningar þeirra styðja þó það margendurtekna sjónarmið, að stærðfræðilíkön fiskifræðinga spanni ekki yfir mjög stóran hluta dæmisins, sem þeim er ætlað að leysa.

Hvert lóð á þessa vogarskál styður allt aðra röksemd en þá, sem beitt er af hálfu grínista í gervi fræðimanna og einnota stjórnmálamanna, sem þora ekki að horfast í augu við vandann. Ónákvæmni fiskifræðinnar er ekki röksemd með auknum aflaheimildum, heldur skertum.

Því minna öryggi sem er í reiknilíkönum fiskifræðinga, því varlegar verður að fara í aflaheimildir. Því víðari sem skekkjumörkin eru í reikningunum, þeim mun minna getur komið úr úr dæminu, ekki 175 eða 150 þúsund tonn af þorski, heldur enn minna.

Ef líkur á suðvestlægri vindátt og vetrarhlaupi í Skeiðará væru teknar inn í reiknilíkönin, kæmi ekki út hærri niðurstaða, heldur lægri. Óvissan verður meiri, skekkjumörkin víðari, öryggisfrádrátturinn hærri, og niðurstaðan innan við 100 þúsund tonn.

Þeir, sem mest flagga kenningum um, að fiskifræðin sé léleg, fiskifræðingar lélegir og reikningsaðferðir þeirra lélegar, átta sig ekki á, að allar þessar röksemdir leiða til þeirrar niðurstöðu, að þjóðin hafi ekki ráð á að veiða eins mikið og fiskifræðingarnir leggja til.

Sárt er að skera niður tekjumöguleika og auka líkur á harmleikjum í atvinnulífinu. Slíkt er þó skárri kostur en að spilla möguleikum þjóðarinnar til lífsviðurværis í nálægri og fjarlægri framtíð. Þjóðin hefur ekki efni á að leyfa sér að lifa bara í deginum í dag.

Ein mynd íslenzkrar óskhyggju er, að hugsanleg skekkja hljóti að vera í þá átt, sem dreymandinn vill, að hún verði. Þetta sameinar einnota ráðherra, hagsmunagæzlumenn af Vestfjörðum og grínista í gervi vísindamanna. Því tala menn um 190 eða 230 þúsund tonn.

Deilurnar um, hvort réttara sé að veiða 190 eða 230 þúsund tonn af þorski á næsta ári, fjalla um misjafna ofveiði. Á grundvelli takmarkaðra upplýsinga mæltu fiskifræðingar með 150 og 175 þúsund tonnum. Af öryggisástæðum er rétt að fara nokkuð niður úr þeim tölum.

Ef þjóðin vildi horfast í augu við vanda sinn, mundi hún ekki leyfa meiri veiði en 100 þúsund tonn til að taka sem minnsta áhættu af hugsanlegu hruni helztu auðlindar sinnar. Í stað þess er hún að tala um 190 eða 230 þúsund tonna þorskafla í rússneskri rúlettu.

Kjörorð óskhyggjumannsins er: “Það lafir meðan ég lifi”. Þetta kjörorð er að baki umræðunnar um, að ekki sé fullt mark á fiskifræðingum takandi og að rétt sé að leyfa nógu mikinn afla til að ekki þurfi að taka á öðrum vandamálum í þjóðfélaginu, svo sem smábyggðaröskun.

Eðlilegt er, að óskhyggjumenn snúi sér nú til veðurfræðings síns og biðji hann um að útvega suðvestanátt, svo að hringekja óskhyggjunnar geti snúizt áfram.

Jónas Kristjánsson

DV