Sýnd veiði, ekki gefin

Greinar

Reynslan sýnir, að lítið hald er í tillögum Alþýðuflokksins um minni útgjöld skattgreiðenda til hefðbundins landbúnaðar. Slíkar tillögur hafa aldrei náð fram að ganga. Því er rétt að taka með varúð fréttum um, að flokkurinn vilji nú tveggja milljarða niðurskurð.

Útgjöld skattgreiðenda til landbúnaðar munu á þessu ári nema rúmlega níu milljörðum króna, þegar búið er að draga frá landgræðslu og menntamál af ýmsu tagi. Þetta eru rúmlega 8% fjárlaga ársins, miklu hærra hlutfall en vestræn ríki verja til hernaðarmála.

Þessir níu milljarðar skiptast í grófum dráttum þannig, að 4745 milljónir fara í niðurgreiðslur, 2787 milljónir í útflutningsuppbætur, 1050 í ýmsa beina styrki og 479 milljónir í ýmsa opinbera þjónustu, sem er hliðstæð þeirri, er aðrir atvinnuvegir verða sjálfir að borga.

Fyrir utan níu milljarðana fara svo 800 milljónir til annarra þarfa landbúnaðarins, sem telja má eðlilegar eða að minnsta kosti ekki umfram það, sem aðrir atvinnuvegir fá hjá skattgreiðendum. Samtals nálgast landbúnaðurinn að vera tíundi hluti fjárlaga.

Níu milljarðarnir nema um 150 þúsund krónum árlega á hverja fjögurra manna fjölskyldu skattgreiðenda. Það er margfalt hærri tala en þekkist í öðrum löndum, sem þó eru fræg af miklum stuðningi við landbúnað, svo sem Norðurlönd og ríki Evrópusamfélagsins.

Fyrir utan níu milljarðana er svo kostnaður neytenda af háu matarverði, af því að þeir hafa takmarkaðan aðgang að innfluttri búvöru. Ýmsir hagfræðingar hafa reynt að meta þetta tjón og hafa komizt að tiltölulega líkum niðurstöðum, sem nema um tólf milljörðum á ári.

Ef menn vilja hugsa, má þeim vera ljóst, að margt mætti færa til betri vegar í þjóðfélaginu, ef þessir fjármunir nýttust til að bæta lífskjör þjóðarinnar og hag atvinnuveganna, jafnvel þótt bændur yrðu settir á föst laun hjá ríkinu til að hlífa þeim fjárhagslega.

Ekki þarf nema fjóra milljarða á ári á móti þessum níu plús tólf milljörðum til að senda 4000 bændum eina milljón á ári hverjum fyrir sig. Samt væri afgangs til annarrar ráðstöfunar meirihluti þess fjár, sem sparaðist af brottfalli ríkisafskipta af landbúnaði.

Þrátt fyrir aðild Alþýðuflokksins að ríkisstjórninni, hafa útgjöld okkar til hefðbundins landbúnaðar aukizt verulega á þessu ári, hvort sem reiknað er í beinum krónum eða hlutfalli af ríkisútgjöldum. Flokkurinn hefur ekki fylgt eftir kröfum sínum í ríkisstjórninni.

Af fenginni reynslu er eðlilegt að telja sýndarmennsku felast í tillögum Alþýðuflokksins um tveggja milljarða niðurskurð, unz annað kann að koma í ljós. Hingað til hefur ást tveggja Jóna á ráðherrastólum komið í veg fyrir, að flokkurinn léti reyna á þetta.

Ekki má heldur gleyma, að þingmenn Alþýðuflokksins hafa misjafna afstöðu til málsins. Einn afturhaldssamasti hagsmunagæzlumaður hins hefðbundna landbúnaðar er einmitt þingmaður Alþýðuflokksins á Austfjörðum, harðari en þingmenn Framsóknarflokksins.

Framsóknarflokkurinn er að því leyti betri en Alþýðuflokkurinn, að menn vita, hvar þeir hafa hann. Alþýðuflokkurinn gerir hins vegar tilraunir til að villa um fyrir fólki og láta líta út fyrir, að hann vilji létta landbúnaðinum af herðum skattgreiðenda og neytenda.

Tillögum Alþýðuflokks um lítils háttar niðurskurð á botnlausu rugli landbúnaðarútgjalda er rétt að taka með hæfilegum efasemdum um raunverulegan vilja að baki.

Jónas Kristjánsson

DV