Washington Square
Við getum líka fengið okkur leigubíl eða rölt í stundarfjórðung inn í hjarta Greenwich Village, að Washington Square, þar sem næsta ferð hefst. Það gerum við, af því að Washington Square er skemmtilegast á sunnudegi, en að öðru leyti kann að vera betra að fara þessa ferð á laugardegi eða öðrum virkum degi, þegar listsýningarsalirnir eru opnir.
Washington Square er stærsti garðurinn á sunnanverðu Manhattan. Hann er sunnudagsstofa þorpsbúa í Greenwich Village. Þar getum við sezt niður til að tefla skák, hlýtt á farandhljómsveitir, horft á hjólabrettis-akróbata og neitað okkur um að kaupa duft. Lífið í garðinum er skemmtilegast að áliðnum degi og að kvöldi.
Fyrir nokkrum árum var Washington Square óþolandi vegna háværra útvarpstækja. Eftir innreið vasatækja með heyrnartólum hefur lífið færzt aftur í skaplegt horf í garðinum. Nú má aftur fá frið til að tapa nokkrum dollurum í fimm mínútna skák.
Að baki garðinum norðanverðum eru tvö skemmtileg húsasund, þar sem áður voru hesthús hefðarfólksins, sem bjó við garðinn, en núna íbúðir menntamanna, er hafa þar fullkomið næði rétt við skarkala torgsins. Þetta eru Washington Mews og MacDougal Alley og þar ríkir andrúmsloft afskekktra þorpsgatna.