Samsteypa í smásölu

Greinar

Neytendur urðu fyrir áfalli um helgina, þegar tilkynnt var, að Hagkaup snæddi Bónus með því að taka helmings eignarhluta í honum. Þar með eru yfir 30% íslenzka matvörumarkaðarins komin á eina hendi. Slíkt varðar við samkeppnislög í flestum nágrannalöndunum.

Rökstyðja má, að hagkvæmni sé fólgin í, að fyrirtæki stækki og geti komið sterkar fram gegn þeim aðilum, sem þau kaupa af. Þetta er sama röksemd og við höfum heyrt um önnur fyrirtæki, sem hér á landi hafa ráðandi markaðshlutdeild, er jaðrar við eða er hrein einokun.

Hitt er hrein markleysa, að samruni af þessu tagi sé æskilegur til að erlendir aðilar eignist ekki smásölu á Íslandi. Ekkert liggur fyrir um, að erlendir aðilar séu hættulegir á þessu sviði. Enda nýtur smásala sjálfvirkrar fjarlægðarverndar fyrir erlendri samkeppni.

Erlendis er talið og byggt á hagfræðilegum forsendum, að fyrirtæki verði hættuleg, þegar þau eru komin með 25% eða 30% markaðshlutdeild og eru langstærst á sínu sviði. Þar eru lög um hömlur á slíka stærð sett til að vernda neytendur og aðra viðskiptamenn.

Hin nýja samsteypa starfar á sviði, sem hingað til hefur einkennzt af miklum fjölda fyrirtækja með litla markaðshlutdeild. Nú er svo komið, að einn risi gnæfir hátt yfir alla hina og getur sett þeim stólinn fyrir dyrnar með margvíslegum hætti. Það sýna erlend fordæmi.

Hagkaup og Bónus hafa hingað til verið kunn að samkeppni, sem hefur leitt til lækkaðs vöruverðs og hagsbóta neytenda. Hér í blaðinu hefur verið fullyrt, að hvort þessara fyrirtækja um sig hafi gert launafólki í landinu meira gagn en stéttarfélögin hafa gert samanlagt.

Af forsögu fyrirtækjanna má ef til vill ráða, að málum verði hagað á þann hátt, að neytendur skaðist ekki af samsteypunni. En reynsla er í útlöndum fyrir því, að hagfræðileg náttúrulögmál taka oftast völdin af góðum vilja þeirra, sem ráða ferðinni í fyrirtækjunum.

Til langs tíma má líta á það sem náttúrulögmál, að neytendur og þar með þjóðin öll skaðist á ofurvaldi eins fyrirtækis eða einnar samsteypu á afmörkuðu sviði. Erlendis eru sett mörk til að takmarka þessa hættu og þá miðað við hlutfall, sem er 30% eða lægra.

Einokunarhættan gildir á Íslandi um flutninga á vörum og fólki á sjó og í lofti, um orkuöflun og -dreifingu, bifreiðaskoðun og sorphreinsun, svo að dæmi séu nefnd. Og auðvitað gildir þetta almennt um þjónustufyrirtæki og -stofnanir, sem starfa innan ríkisgeirans.

Eina mynd þessarar hættu sjáum við, þegar risafyrirtæki á borð við Flugleiðir og Eimskip seilast til áhrifa á skyldum sviðum í kringum sig. Flugleiðir hafa gerzt ferðaskrifstofa, bílaleiga og hótelkeðja í krafti ofurvalds síns á markaðinum og ryðja öðrum aðilum út í horn.

Ekki þarf að hafa neinar efasemdir um góðan ásetning þeirra, sem ákváðu að búa til samsteypu úr Hagkaupi og Bónusi, þótt látið sé í ljósi, að reynslan af náttúrulögmálum hagfræðinnar valdi því, að full ástæða sé til að hafa áhyggjur um frekari þróun málsins.

Ef samsteypan verður til þess, að Alþingi mannar sig upp í að setja lög, sem eru hliðstæð þeim lögum í útlöndum, er banna ráðandi markaðshlutdeild einnar samsteypu, má þó segja, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Og þetta er það, sem nú þarf að gera.

Aðild okkar að fjölþjóðlegum efnahags- og viðskiptastofnunum leiðir vonandi til þess, að við neyðumst til að feta í spor annarra á þessu mikilvæga sviði.

Jónas Kristjánsson

DV