Diamond Row
Við höldum áfram norður 5th Street. Við beygjum til vinstri inn í 47th Street. Kaflinn milli 5th Avenue og 6th er kallaður Diamond Row, af því að þar eru gimsteinsalar í röðum. 80% allrar heildsölu skartgripa í Bandaríkjunum fara fr
am á þessum hundrað metrum.
Heildsalan fer fram í bakhúsum og á efri hæðum, en smásalan við götuna. Sumir kaupmennirnir eru með gimsteinana í vösunum og gera út um viðskiptin úti á gangstétt. Þau eru handsöluð án þess að peningar sjáist fara á milli.
Channel Gardens
Við förum áfram 5th Avenue framhjá mörgum söluskrifstofum flugfélaga og vaxandi fjölda frægra tízkubúða.
Milli 49th og 50th Streets, andspænis tízkuverzluninni Saks, förum við til vinstri inn í Channel Gardens, þar sem söluskrifstofa Flugleiða var lengi á vinstri hönd. Channel Gardens er notaleg gróðrar- og lækjarbunuvin í stál- og glerfrumskógi miðborgarinnar, kjörinn staður til að mæla sér mót. Þetta er eins konar Austurvöllur borgarinnar, því að þar er sett upp jólatré borgarinnar.
Rockefeller Center
Framundan er Rockefeller Plaza á lægra gólfi, þar sem skautað er að vetrarlagi og drukkið kaffi á sumrin. Yfir torginu vakir gullhúðuð bronzstytta af Prómeþeifi.
Þetta er miðja Rockefeller Center, sem aftur á móti er af mörgum talin vera miðja New York. Turnarnir við torgið voru reistir í Art Decco stíl árin fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þeir eru tengdir saman neðanjarðar um Rockefeller Plaza. Þar niðri eru verzlanir og veitingahús á fjörlegu neðanjarðarsvæði.
Tignarlegastur turnanna í Rockefeller Center er RCA-höllin, sem gnæfir í 70 hæðir yfir torginu. Þar uppi er ágætt útsýni frá þaksvölunum. Að baki RCA-hallarinnar er Radio City Music Hall, stærsta tónlistarhöll heims, með sætum fyrir 6.000 manns.