Verndun sægreifa

Greinar

Þegar stjórnvöld ráðgera að verja 500 milljónum af almannafé til að bæta þorskveiðiskipum aflavonarmissi, er eðlilegt, að spurt sé, hvað hafi áður verið gert í hliðstæðum tilvikum; hvort fordæmi séu fyrir slíkri aðgerð eða hvort fordæmi séu fyrir, að ekkert sé gert.

Aflaheimildir hafa áður verið skertar á ýmsum sviðum og komið misjafnlega niður á skipum með misjafnar tegundir kvóta. Spyrja má, hvort þá hafi skaðinn komið niður á landshlutum, sem eru ekki eins mikið í náð kerfisins og þeir, sem nú bergmála hæsta kveinstafi.

Athyglisvert er, að þrýstingurinn, sem reyndist ríkisstjórninni óbærilegur, kom frá landshluta, sem þekktur er af svo mikilli fjarlægð frá atvinnuleysi, að flytja verður þangað fólk frá útlöndum til að kom í veg fyrir, að afli sæti skemmdum í frystihúsum vegna skorts á fólki.

500 milljón króna styrkurinn frá skattgreiðendum er ekki miðaður við atvinnuástand byggðarlaga, ekki miðaður við afkomu byggðarlaga og ekki miðaður við afkomu fyrirtækja í byggðarlögum. Hann er hreinn styrkur til þeirra sægreifa, sem hafa átt vænan þorskkvóta.

Eðlilegra hefði verið að nota tækifærið til að losna við kvótakerfið í heild með því að gera tvennt í senn, gefa krónugengið frjálst og koma á fót sölu veiðileyfa. En slíkt hafa sægreifarnir ekki mátt heyra nefnt, af því að þeir telja sig eina eiga auðlindir hafsins.

Í herferð stjórnvalda fyrir málstað óhóflegrar veiði er þjóðhagsstjóri leiddur fram og látinn vitna, að þjóðarbúskapurinn fái bara kvef af völdum aflavonarbrests, en ekki lungnabólgu eins og orðið hefði, ef farið hefði verið eftir “ýtrustu” tillögum fiskifræðinga.

Þegar þjóðhagsstjóri notar pólitíska lummu á borð við “ýtrustu”, er eðlilegt að spyrja, hvað þetta orð þýði í samhengi málsins. Ekki er vitað um aðrar tillögur fiskifræðinga en tvær. Önnur kom frá útlendum fræðingum, en hin kom frá innlendum og var sú töluvert vægari.

Ekki er vitað, að til umræðu hafi verið tillögur erlendra fræðimanna um enn minni þorskafla en hinir íslenzku lögðu til. Aðeins voru til umræðu vægustu tillögur fiskifræðinga, en ekki hinar “ýtrustu”. Þannig er innlegg þjóðhagsstjóra aðeins innantómt slagorð.

Af pólitískum afskiptum þjóðhagsstjóra má þó ráða, að aflavonarbresturinn nemi aðeins hálfu öðru prósenti af þjóðartekjum. Af því má ljóst vera, að oft og mörgum sinnum hafa meiri vandræði orðið í þjóðfélaginu, án þess að grátkórum sé úthlutað 500 milljónum króna.

Mikilvæg fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota hundruðum saman víða um land, án þess að stjórnvöld hafi lyft svo miklu sem litla fingri. Samanlögð upphæð þeirra gjaldþrota er margfalt hærri en þau gjaldþrot, sem hugsanlega gætu verið í augsýn hjá nokkrum sægreifum.

Verndun sægreifa felur um leið í sér, að stefnt er að framhaldi á því óeðlilega atvinnuástandi, að flytja verði útlendinga til fiskvinnslustarfa á Vestfjörðum til að forða afla undan skemmdum, á sama tíma og fiskvinnslufólki í öðrum landshlutum er sagt að fara heim.

Stöku sinnum verður vart óska, sem fela í sér, að sjávarútvegurinn verði gerður að stafkarli á borð við landbúnað. Hingað til hafa hliðarspor af því tagi ekki haft varanlegar afleiðingar. 500 milljón króna ölmusan er enn eitt sporið, sem ekki má hafa fordæmisgildi.

Miklu moldviðri hefur verið þyrlað upp til að gera ríkisstjórninni kleift að taka 500 milljónir af skattgreiðendum án þess að þeir sjái landslagið að baki kófinu.

Jónas Kristjánsson

DV