Japl og jaml og fuður

Greinar

Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, hefur laukrétt fyrir sér, þegar hún segir, að siðlaust sé núverandi aðgerðaleysi Vesturlanda gegn ofbeldi Serba í Bosníu. Hún er Winston Churchill nútímans og gagnrýnir ráðamenn af tagi Neville Chamberlain.

Thatcher er um leið einkum að gagnrýna þá tvo vestrænu ráðamenn, sem mest hafa reynt að hindra aðgerðir gegn ofbeldi Serba. Það eru eftirmaður hennar, John Major, og George Bush Bandaríkjaforseti, sem báðir eru siðlausir samkvæmt skilgreiningu járnfrúarinnar.

Slíkir menn lítilla sanda og lítilla sæva í utanríkismálum hafa gert óvirkar ýmsar fjölþjóðlegar stofnanir, sem ættu að hafa harðari afskipti af ofbeldi Serba í Bosníu. Þessar stofnanir eru Sameinuðu þjóðirnar og öryggisráð þeirra, Atlantshafsbandalagið og Evrópusamfélagið.

Afskipti þessara fjölþjóðastofnana og ýmissa hjálparstofnana styðja raunar málstað Serba með því að taka á sínar herðar afleiðingarnar af þjóðahreinsuninni, sem þeir hafa verið að framkvæma með ótrúlegri villimennsku í Bosníu og framkvæma enn af fullum þunga.

John Major og George Bush eiga það sameiginlegt með Helmut Kohl Þýzkalandskanslara og Francois Mitterrand Frakklandsforseta að hafa sótzt eftir mannaforráðum í ríkjum, sem hafa tekizt á herðar að vilja ráða miklu um ferð Vesturlanda inn í óræða framtíð.

Bandaríkin hafa komizt upp með að ráða ferðinni í Atlantshafsbandalaginu. Bretland, Frakkland og Þýzkaland hafa komizt upp með að ráða ummyndun Evrópusamfélagsins í miðstýrt tollmúravirki. Þessu framtaki fylgir ábyrgð, einnig hernaðarleg ábyrgð.

Bush og Major, Kohl og Mitterrand axla ekki þessa ábyrgð, þegar þeir hafa forustu um orðaleiki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og sjá um, að Atlantshafsbandalagið og Evrópusamfélagið haldi að sér höndum. Þeir eru arftakar Neville Chamberlain í nútímanum.

Ályktun öryggisráðsins um leyfi til beitingar hervalds í stuðningi við hjálparstarf er fremur ómerkileg og máttvana tilraun til að slá ryki í augu Vesturlandabúa og fá þá til að ímynda sér, að ráðamenn þeirra séu að gera eitthvað raunhæft í blóðbaðinu á Balkanskaga.

Margaret Thatcher er af öðru og sterkara bergi brotin. Hún veit, að 95% sakarinnar á blóðbaðinu hvíla á Serbum. Hún veit, að það verður að stöðva þá og snúa þeim til baka, svo að einstæð ósvífni þeirra verði ekki fordæmi í öðrum þjóðardeilum í Austur-Evrópu.

Nú horfa mál svo, að Serbar hafa náð feiknarlegum árangri, sem Vesturlönd munu festa í sessi með vopnahléssamningum og friðargæzlusveitum, svo sem dæmin sanna á Kýpur og í Króatíu. Þessi árangur verður öðrum ágengnisþjóðum og -þjóðarbrotum að fordæmi.

Ef raunverulegir leiðtogar á borð við Margaret Thatcher væru við völd í Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi og Þýzkalandi, væri búið að taka í taumana. Búið væri að sökkva herflota Serba, eyða herflugvöllum þeirra og herflugvélum og sprengja brýr þeirra.

Ef ekki væru aumingjar við völd í helztu ríkjum Vesturlanda, væri einnig búið að innsigla Serbíu á þann hátt, að þar lenti engin flugvél og þangað færi ekkert farartæki á landi, hvorki með vörur né fólk. Vestrænir flugherir sæju um, að einangrun Serbíu væri alger.

En því miður eru japl og jaml og fuður við völd í helztu forusturíkjum Vesturlanda. Hvergi er sjáanlegur neinn Churchill og hvergi nein Margaret Thatcher.

Jónas Kristjánsson

DV