Bush er búinn að vera

Greinar

Eftir fjögurra ára embættisferil George Bush Bandaríkjaforseta eru landsmenn hans loksins farnir að átta sig á því, sem fyrir löngu mátti ljóst vera, að hann er óhæfur til starfans. Þeir fella hann í skoðanakönnunum, hverri á fætur annarri, mánuð eftir mánuð.

Hrunið hófst í innanlandsmálum, þar sem Bush hefur gætt hagsmuna hinna ríku og sett kynórakarl í hæstarétt. Hann sagðist vera forseti menntamála og hefur svelt skólakerfið. Hann lýsti stríði gegn eiturlyfjum og hefur skorið niður útgjöld til slíkrar baráttu.

Þótt innri hrörnun Bandaríkjanna í forsetatíð hans sé landsmönnum hans efst í huga, þegar þeir hafna endurkjöri hans, eru þeir líka að byrja að sjá, að saga hans í eigin sérgrein, utanríkismálum, er ein samfelld harmsaga, sem ekki getur flokkast undir slysni.

Komið hefur í ljós, að Saddam Hussein var í náðinni hjá Bush fram undir innrásina í Kúvæt. Árið 1989 fékk hann sextíu milljarða króna lán á vegum Bandaríkjastjórnar til matvælakaupa. Á sama tíma lét leyniþjónustan Saddam Hussein hafa mikilvægar upplýsingar.

Ronald Reagan og George Bush áttu marktækan þátt í að framleiða skrímslið Saddam Hussein. Og þegar fjölþjóðaherinn hafði komið skrímslinu á hné í Persaflóastríðinu, gerði Bush heimsbyggðinni allri þá bölvun að stöðva stríðið og láta skrímslið sleppa með skrekkinn.

Bush lætur Kínastjórn njóta beztu viðskiptakjara, þótt sannað sé, að hún er með forhertustu stjórnvöldum heims og selur Bandaríkjunum vörur, sem framleiddar eru í þrælabúðum. Bush var einu sinni sendiherra í Kína og ímyndar sér ranglega, að hann skilji landið.

Sovétstefna Bush einkenndist fram í rauðan dauðann af stuðningi við kommúnistann og íhaldsmanninn Míkhaíl Gorbatsjov, sem var fylgislaus í heimalandi sínu, og hreinum dónaskap í garð umbótasinnans Borisar Jeltsín, sem hafði unnið sér almennt traust Rússa.

Á sama tíma barðist Bush gegn sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og gerði opinberlega grín að Íslandi fyrir að vera fyrst ríkja til að viðurkenna fullveldi Litháens. Almennt hefur sambandsríkismaðurinn Bush aldrei skilið þörf smáþjóða til að lifa í eigin smáríki.

Þetta endurspeglaðist í Júgóslavíu, þar sem Bush reyndi eftir megni að halda lífi í miðstjórn glæpamanna í Belgrað, löngu eftir að umheimurinn hafði snúið við henni bakinu. Afstaða Bush varð til þess, að stjórnin í Belgrað taldi sig mundu komast upp með óhæfuverk.

Kaldhæðnislegt er, að Bush hefur nú kallað heim hægri hönd sína í harmsögu utanríkismála og á hann að stjórna endurkjöri forsetans. Bjargvættur Bush á að vera James Baker utanríkisráðherra, sem lagði lóð sitt margoft á vogarskál Slobodans Milosevic í Belgrað.

Undir forustu Bakers, sem sá um fyrri forsetakosningarnar, einkenndist baráttan af hálfu Bush af neðanbeltishöggum og mannorðsþjófnaði. Bandaríkjamenn sáu ekki gegnum aðferðina á sínum tíma, en ólíklegt er, að sami óhroði Bakers dugi Bush til endurkjörs.

Hið eina jákvæða, sem situr eftir í minningunni um hrakfallasögu bandarískra utanríkismála í stjórnartíð George Bush, er, að hann er fyrsti forsetinn, sem þorir að láta af 100% stuðningi við Ísrael, ofbeldishneigt smáríki og friðarspilli fyrir botni Miðjarðarhafs.

Bandaríkjamenn eru rétt að byrja að átta sig á, að Bush er ekki skárri í utanríkismálum en í innanríkismálum. Er það gerist, á hann sér ekki viðreisnar von.

Jónas Kristjánsson

DV