Seinfært reynslunám

Greinar

Verkstjórar stjórnarflokkanna á Alþingi hafa lært af reynslunni, þótt þeir hafi ekki viljað þiggja góð ráð á sínum tíma, þegar varað var í þessum dálki við aflsmunarstefnu í forsætisnefnd Alþingis. Þeir sjá nú, að stjórnarmeirihlutinn tapaði á þessari stefnu í fyrravetur.

Ef stjórnarandstaðan tekur ekki þátt í störfum forsætisnefndar, geta verkstjórar stjórnarflokkanna ekki notað nefndina til að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um tilhögun þingstarfa. Þeir verða því frekar en ella að sæta aðgerðum, sem tefja framgang stjórnarmála.

Þetta var einfalt og augljóst. En verkstjórar stjórnarflokkanna sáu það ekki. Þeir fluttu í staðinn lögskýringar um það eðli lýðræðis, að meirihlutinn ætti að ráða. Nú hafa þeir lært af reynslunni og vita, að diplómatískar aðferðir geta stundum verið heilladrýgri en þrjózkan.

Núna löngu síðar er gaman að lesa í blaðaviðtali við formann þingflokks Alþýðuflokksins, að ófremdarástand hafi ríkt á þinginu í fyrra í kjölfar deilnanna, sem þá stóðu um skipan forsætisnefndar þingsins. Hann telur, að nú verði stjórnarandstaðan ábyrgari.

Dipómatíukennslan á Alþingi er ekki hraðvirk, þótt verkstjórarnir hafi séð ljósið í vandræðamálum forsætisnefndar. Annar höfuðverkur þeirra hefur verið formennska í þeirri nefnd, sem nú á að fjalla um samninginn um þáttöku Íslands í Evrópska efnahagssvæðinu.

Formaður nefndarinnar hefur lengi verið Eyjólfur Konráð Jónsson, sem er svo vel metinn, að ekki var blakað við honum, þótt flokkur hans lenti um skeið í minnihluta á Alþingi. En Eyjólfur hefur efasemdir um Evrópska efnahagssvæðið og þykir fremur hættulegur.

Einn af grínþáttum síðustu vikna eru fundir forsætisráðherra með formanni utanríkisnefndar, þar sem reynt hefur verið að fá formanninn til að gefa vilyrði um ljúfa meðferð Evrópska efnahagssvæðisins í nefndinni, þrátt fyrir efasemdir formannsins um ýmis efnisatriði.

Greinilegt er, að formaðurinn hefur ekki viljað gefa yfirlýsingar, sem forsætisráðherra telur nægar í þessu viðkvæma máli. Þess vegna var formanninum fórnað. Ríkisstjórnin treysti honum ekki til að koma málinu heilu á húfi út úr nefndinni á tilsettum tíma.

Þetta mál er töluvert flóknara en forsætisnefndarmálið. Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin vilji hafa sem bezt tök á mikilvægasta máli Alþingis. Það hlýtur að vera óþægilegt, að stjórnarþingmaður með sjálfstæðar skoðanir sé formaður í nefndinni, sem fjallar um þetta mál.

Í öllu kerfi þykir óþægilegt, að ekki sé hægt að reikna alla. Sjálfstæðar skoðanir eru ekki hátt skrifaðar í kerfi stjórnmálaflokka, hvort sem flokkurinn heitir eftir sjálfstæði eða einhverjum öðrum fagurgala, sem hafður er til skrauts á tyllidögum. Raunveruleikinn er annar.

Evrópska efnahagssvæðið er samt ekki mál, sem heppilegt er að keyra niður í kok á mönnum. Það er flókið og hefur framkallað efasemdir, sem ekki hefur tekizt að andmæla á fullnægjandi hátt. Ríkisstjórnin lemur það í gegn, en það verður á gallsúran hátt.

Sú aðgerð þingflokksins að reka Eyjólf Konráð Jónsson úr formennsku utanríkisnefndar er fyrsta skrefið í slagsmálum, sem munu sundra þjóðinni og eru algerlega á ábyrgð ríkisstjórnar, sem hefur bæði hafnað stjórnarskrárbreytingu og þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reynslunámið nær ekki svo langt, að ríkisstjórnin og verkstjórar hennar á þingi megni að gera þjóðina sæmilega sátta við Evrópska efnahagssvæðið.

Jónas Kristjánsson

DV