AT&T
Við snúum á hæli sömu leið út á Park Avenue og höldum enn áfram göngu okkar til norðurs. Á vinstri hönd verður fyrir okkur einn allra nýjustu skýjakljúfa borgarinnar, AT&T, frá 1984. Hann er teiknaður af Philip Johnson og John Burgee, auðþekkjanlegur af Chippendale-stólbaksstíl toppsins. Um leið er hann einn umdeildasti turn borgarinnar.
AT&T er eitt helzta dæmið um fráhvarf nútímans frá modernisma. Hliðar skýjaklúfsins eru virðulega klæddar rauðleitum marmara, en ekki áli, gleri eða stáli. Í heild minnir turninn á ímyndaða ævintýrahöll, sem andinn í lampa Aladíns hefur flutt hingað fyrir misskilning.
Skýjakljúfur þessi stendur á risaháum súlum yfir eins konar almenningsgarði, þar sem franskir garðstólar og kaffiborð eru á víð og dreif. Að því leyti minnir AT&T á Citicorp Center
Madison Avenue
Þegar við komum á hornið, þar sem Park Avenue mætir verzlanagötunni 57th Street, eigum við kost á þremur leiðum. Hin fyrsta liggur til vinstri eina húsaröð eftir 57th Street og síðan til hægri inn í Madison Avenue.
Sú gata gengur næst 5th Avenue og 57th Street sem hin þriðja af fínustu verzlanagötum borgarinnar. Allt frá 57th Street norður að 72nd Street er óslitin röð verzlana og listsýningarsala.
Madison Avenue er að öðru leyti þekktust sem miðstöð auglýsinga- og áróðursfyrirtækja í borginni.