Ódýr röksemdafærsla

Greinar

Ef marka má framsöguræðu utanríkisráðherra í máli Evrópska efnahagssvæðisins, ætlar ríkisstjórnin að fara ódýrar og hálfkaraðar leiðir til að fá samninginn staðfestan. Hún ætlar að beita rökum, sem ekki sannfæra aðra landsmenn en handauppréttingamenn eina.

Sorglegt er, að eitt mikilvægasta þingmál síðustu áratuga skuli ekki fá betri meðferð á Alþingi en hefðbundinn skæting milli manna, sem hafa orðið svo heillaðir af hæfni sinni í pólitískum burtreiðum, að þeir hafa misst sjónar á varanlegri stjórnvizku og orðstír.

Utanríkisráðherra lagði áherzlu á, að samráðherrar sínir í fyrri ríkisstjórn, sem nú sitja í stjórnarandstöðu, hafi þá ekki mótmælt ýmsum atriðum, sem þeir kvarti nú um. Þetta er afbrigði af gömlu lummunni um, að þið í stjórnarandstöðunni eruð ekki hótinu betri en við.

Þetta kann að renna ljúft um kverkar handauppréttingaliðs ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Hinir hiksta, sem hvorki hafa mikið álit á forustumönnum ríkisstjórnarinnar né forustumönnum stjórnarandstöðunnar og vilja fremur, að rætt sé efnislega um málið á Alþingi.

Í tíð fyrri ríkisstjórnar var málið óljósara en það er nú. Ekki eru efnisleg rök fyrir því að hallmæla fyrrverandi ráðherrum fyrir tvískinnung; að hafa þá ekki verið á móti óljósum drögum að niðurstöðu, sem núna er ljósari og sem þeir eru núna fremur andvígir.

Svo virðist sem utanríkisráðherra vilji ekki stjórnarskrárbreytingu vegna þessa máls á þeirri undarlegu forsendu, að breytingar á stjórnarskrám valdi óstöðugleika og ringulreið í stjórnarháttum. Hann vísaði í framsöguræðunni til þess, að svo hafi verið í útlöndum.

Utanríkisráðherra ruglar saman orsök og afleiðingu. Það eru ekki breytingar á stjórnarskrá, sem valda óstöðugleika og ringulreið, heldur eru það óstöðugleiki og ringulreið, sem valda því, að menn telja þurfa að breyta stjórnarskrá til að fækka ágreiningsefnum sínum.

Ennfremur virðist utanríkisráðherra halda uppi þeirri undarlegu kenningu viðskiptaráðherra, að fjögurra lögmanna nefnd, sem utanríkisráðherra skipaði að eigin geðþótta, sé eins konar stjórnarskrárdómstóll, sem hafi í eitt skipti fyrir öll afgreitt það mál.

Fjórmenningar utanríkisráðherra skipta ekki hætishót meira máli en aðrir lögmenn, sem hafa látið í ljósi andstæð sjónarmið. Enda voru rök fjórmenninganna ekki harðari en, að samningurinn fæli í sér lítið valdaafsal og ekki meira en hefðbundið væri orðið.

Það er hart aðgöngu, að léleg frammistaða stjórnmálamanna í fyrri málum skuli vera notuð til að rökstyðja, að þingmenn megi áfram framselja vald í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Samkvæmt því má aldrei spyrna við fótum á óheillabrautinni.

Utanríkisráðherra vísaði til Sigurðar Líndal prófessors, sem heldur því fram, að búvörulög og fiskveiðistjórnunarlög og raunar mörg fleiri lög feli í sér valdaafsal Alþingis, sem sé stjórnarskrárbrot. En hann dregur einkennilega ályktun af skoðun Sigurðar Líndal.

Ef rökstuddar skoðanir eru meðal fræðimanna um, að stjórnarskráin sé kerfisbundið brotin í hverju stórmálinu á fætur öðru, eiga stjórnmálamenn að taka efnislega á málinu í eitt skipti fyrir öll og fá niðurstöðu um, hvort eigi að stöðva þá þróun og snúa henni við.

Utanríkisráðherra telur hins vegar, að ekki beri að taka mark á endurteknu þrasi og að beita megi hundalógík til að troða Evrópusamningnum upp á þjóðina.

Jónas Kristjánsson

DV