Leiðtogalaus þjóð

Greinar

Varanleg breyting verður á þjóðfélaginu, ef atvinnuleysi verður 4% eða meira eftir áramótin eins og Vinnuveitendasambandið spáir. Alvarlegast er, að koðna mun niður bjartsýni og kjarkur, sem hefur fylgt áratuga langri reynslu þjóðarinnar af rúmlega fullri atvinnu.

Við erfiðar aðstæður hafa áræði og dugnaður fleytt Íslendingum langt. Fólk hefur trúað á framtíðina og talið sig geta búið sig undir hana með ómældri vinnu, sem alls staðar væri á boðstólum. Nú er þetta sérstaka, íslenzka ástand að víkja fyrir vantrú á framtíðina.

Kreppa í hugsun og viðhorfum fylgir kreppu í framtaki og atvinnutækifærum. Menn verða kjarkminni og draga saman seglin, þannig að úr þessu verður vítahringur, þar sem kreppa framkallar meiri kreppu. Við erum að sigla inn í óþekkt ástand af þessu tagi.

Svo illa erum við undir atvinnuleysi búin, að sjóðurinn, sem við höfum myndað að erlendri fyrirmynd til að bæta úr tekjuleysi atvinnulausra, ræður aðeins við helminginn af spáðu 4% atvinnuleysi og greiðir hann þó lægri upphæðir en tíðkast í nágrannalöndunum.

Erfitt er að hugsa þá hugsun til enda, að greiðslufall verði hjá Atvinnuleysistryggingasjóði og að hér rísi súpueldhús eins og á kreppuárunum miklu. Samt er ríkisstjórnin að hugsa um að ræna fé úr sjóðnum til að skapa óviss atvinnutækifæri með gamalkunnu handafli.

Erfiðleikar líðandi stundar kalla á kjarkmikil stjórnvöld, sem gera róttækar breytingar til að rjúfa vítahringinn. Okkur vantar ríkisstjórn, sem byltir þjóðfélaginu eins og Viðreisnarstjórnin gerði í upphafi sjöunda áratugarins, þegar viðjar vanans voru sprengdar brott.

Viðbrögðin við fyrirsjáanlegum samdrætti í þorskafla eru fyrsta stóra merki þess, að við höfum lélega og hefðbundna ríkisstjórn, sem ekki treystir sér til að taka á vandanum af krafti. Hún komst að niðurstöðu, sem tryggir okkur ekki vaxandi þorskstofn á næstu árum.

Undirrót erfiðleika okkar er, að við notuðum gróða velgengnisáranna til að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í hefðbundnum landbúnaði fyrir um það bil tvo tugi milljarða króna á ári á núverandi verðlagi. Það er dýrasta aðferð, sem til er í greiðslu atvinnuleysisbóta.

Þjóðarbú af íslenzkri stærð ræður ekki við, að 4745 milljónir króna fari árlega í niðurgreiðslur búvöru, 2787 milljónir í útflutningsuppbætur búvöru, 1050 milljónir í beina styrki til landbúnaðar og 479 milljónir í ýmsa þjónustu, sem er umfram aðra atvinnuvegi í landinu.

Ofan á þessa níu milljarða, sem eru 8% fjárlaga ríkisins á þessu ári, kemur svo tólf milljarða árlegt tjón neytenda af því að hafa ekki aðgang að hliðstæðri búvöru á heimsmarkaðsverði. Það er þessi herkostnaður, sem hefur sligað þjóðina og framkallað nýja kreppu.

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að taka á þessum vanda, heldur endurnýjar hún og staðfestir búvörusamninga upp á nokkurn veginn óbreyttan fjáraustur. Í staðinn ætlar hún að halda áfram að rústa menntakerfi þjóðarinnar, heilbrigðiskerfi og tryggingakerfi.

Þjóðhagsstjóri hefur sagt, að aflasamdrátturinn einn jafngildi bara kvefi í efnahagslífi þjóðarinnar. Það eru önnur og stærri atriði, sem valda siglingu okkar inn í kreppu og 4% atvinnuleysi. Fyrst og fremst er það kjarkleysi og dugleysi stjórnvalda, sem magna kreppuna.

Því miður eru engin teikn á lofti um, að nokkur pólitískur aðili hafi reisn til að leiða þjóðina út úr ógöngum, hins árlega tveggja tuga milljarða landbúnaðarsukks.

Jónas Kristjánsson

DV