Kosningastríð í sjónmáli

Greinar

Bandamenn hafa sett bann á flugher Íraks sunnan 32. breiddarbaugs til að vernda byggðir Sjíta í sunnanverðu landinu. Þetta er hliðstætt banni, sem áður hafði verið sett á flugherinn norðan 36. breiddarbaugs til að vernda byggðir Kúrda í norðanverðu landinu.

Ærin tilefni eru að baki hins nýja banns, því að stjórn Saddams Hussein hefur látlaust ofsótt Sjíta frá þeim degi, er Bush Bandaríkjaforseti gafst upp á Persaflóastríðinu. Hún hefur látið sprengjum og eitri rigna á Sjíta til stuðnings villimannlegum hernaði gegn þeim á landi.

Bannið dregur úr möguleikum Írakshers á að athafna sig í byggðum Sjíta. Líklegt er, að hann verði að draga sig í hlé frá fenjasvæðunum, þar sem Sjítar hafa leitað skjóls. Án stuðnings úr lofti getur herinn lítið athafnað sig á slíkum slóðum, þar sem allir hafa harma að hefna.

Ef bandamenn fengjust líka til að stækka verndarsvæðið í norðurhluta landsins suður til 35. breiddarbaugs, væri Kúrdum veitt svipuð vernd. Griðasvæði þeirra nær núna ekki yfir nægilega stóran hluta af byggðum þeirra. Það framlengir flóttamannavandann.

Hins vegar hefur verið brýn þörf á banni á flugher Íraks í hálft annað ár, ekki bara norðan og sunnan ákveðinna breiddarbauga, heldur almennu banni. Ekkert hefur gerzt á síðustu vikum, sem gefur aukið tilefni til banns. Aðrar fjarlægari ástæður eru að baki.

Bush Bandaríkjaforseti hefur lengi talið ranglega, að Persaflóastríðið mundi stuðla að endurkjöri sínu í nóvember á þessu ári. Hann er nú byrjaður að átta sig á, að þessu er þveröfugt farið. Framganga hans í stríðinu verður honum þvert á móti fjötur um fót í kosningum.

Margir Bandaríkjamenn eru að byrja að átta sig á því, sem öllum ætti að hafa verið ljóst í hálft annað ár, að Bush hætti Persaflóastríðinu of snemma. Hann gerði það til að vernda miðstjórnina í Bagdað fyrir klofningi Íraks í þrjá hluta, ríki Sunníta, Sjíta og Kúrda.

Lélegir utanríkisráðgjafar forsetans óttuðust, að veikt og klofið Írak mundi magna nágrannalandið Íran til aukinna áhrifa á svæðinu. Auk þess eru þeir kerfisbundið fylgjandi fjölþjóðaríkjum eins og Írak, Júgóslavíu og Sovétríkjunum, af því að þau minntu á Bandaríkin.

George Bush óttast nú, að myndir af vígreifum Saddami Hussein muni spilla fyrir endurkjörinu og að kjósendur fari að átta sig á, að Íraksher er nú þegar kominn aftur með helminginn af þeim herstyrk, sem hann hafði, þegar bandamenn hófu gagnsókn sína gegn honum.

Ástæða er til að óttast, að örvænting Bandaríkjaforseta út af varanlegu lággengi í skoðanakönnunum leiði til þess, að hann noti hernað í útlöndum til að draga athygli kjósenda frá innanlandsmálum og til að fylkja þjóðinni um þjóðhöfðingjann á hættustund.

Ef bandarískt herlið ræðst á einhvern hátt til afmarkaðrar atlögu gegn her Íraks á tímabilinu fram til kosninganna í nóvember, er eðlilegt að túlka það sem örvæntingarfullt innlegg í kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Hinar efnislegu forsendur eru ekki raunverulegar.

Hinn rétti tími til að losna við glæpahyski Saddams Hussein var við lok Persaflóastríðsins. Eftir að hafa látið hann, stjórn hans og herafla leika lausum hala í hálft annað ár til viðbótar er um þessar mundir ekki um að ræða nein ný tilefni af hans hálfu til endurvakins stríðs.

Saddam Hussein hefur hunzað Sameinuðu þjóðirnar í hálft annað ár. Aukið bann á flugher hans stafar ekki af, að hann sé að auka þvermóðsku sína einmitt núna.

Jónas Kristjánsson

DV