Musei Vaticani
Þetta eru vel skipulögð og mikið sótt söfn, einkum fræg fyrir Sistínsku kapelluna, sem hefur verið hreinsuð og logar nú í litadýrð málverka Michelangelos. Auðvelt er að fara um söfnin, því að fjórar misjafnlega langar og ítarlegar leiðir um þau eru merktar fjórum litum. Við veljum ótrauð lengstu leiðina.
Fyrst liggur leiðin um egypzka safnið með styttum af móður Ramsesar II og Mentuhotep faraó í sal nr. 5.
Síðan förum við um grísk-rómverska safnið, þar sem frægastur er Belvedere-garður. Þar eru frægar styttur af Apollo og Perseifi, en einkum þó styttan af Laocoën konungi og sonum hans, sem reyna að verjast höggormum. Þessi höggmynd er frá Rhodos frá 1. öld f.Kr. og fannst í gullhöll Neros keisara. Þetta verk er oft tekið sem dæmi um spennuna í hlaðstíl hellenismans, er grísk list rann skeið sitt á enda.
Næst er etrúska safnið með dýrgripum úr grafhýsi etrúskra hjóna. Munirnir sýna vel sérstöðu etrúskrar menningar, sem var öðru vísi en grísk og rómversk og stundum talin ættuð frá Litlu-Asíu.
Stanze di Rafaello
Þá liggur leiðin um langan gang, þar sem er teppasafn og safn landakorta frá 1580-1583. Loft þessara sala eru rækilega skreytt.
Síðan förum við um sali Rafaels, með verkum hans frá 1508-1517, þar á meðal eldsvoðanum í Borgo, Aþenuskólanum, messunni í Bolsena og frelsun Péturs postula úr fangelsi. Þessir salir eru frægasti hluti safnanna næst á eftir Sistínsku kapellunni.
Svo förum við um Nikulásarkapellu með freskum eftir Fra Angelico frá 1447-1451 og um Borgia-sali með freskum eftir Pinturicchio frá 1492-1503.
Capella Sistina
Þá er röðin komin að Sistínsku kapellunni, sem var reist 1475-1480. Þar er frægast loftið, sem Michelangelo málaði 1508-1511 og gaflmynd hans af dómsdegi, máluð 1533. Loftmyndirnar sýna sköpun heimsins, brottrekstur Adams og Evu úr aldingarðinum og Nóa. Dómsdagsmyndin er hlaðin spennu og
markar þau tímamót, að endurreisnarstíll er þá að byrja að breytast yfir í hlaðstíl.
Næst er málverkasafnið, Pinacoteca, þar sem eru meðal annars þrjú altarismálverk Rafaels, af krýningu heilagrar Maríu, Madonnu frá Foligno og ummyndun Krists á fjallinu. Þar er líka heilagur Jeronimus eftir Leonardo da Vinci og losun Krists af krossinum eftir Caravaggio.
Ferðinni um söfn Vatíkansins lýkur í yngsta hlutanum; fornminjasafni, þar sem meðal annars eru steinfellumyndir úr baðhúsi Caracalla; og kristminjasafni, þar sem eru nokkrar þekktar steinkistur.
Við förum ekki sömu leið til baka úr safninu, heldur með strætisvagni, sem ekur á hálftíma fresti um garða Vatíkansins milli safns og torgsins framan við Péturskirkju.