Æðibuna veldur áhyggjum

Greinar

Ríkisstjórnin hefur tamið sér óvenjulegt verklag, sem líklega er upprunnið við allt aðrar aðstæður í borgarstjórn Reykjavíkur. Hjá borginni eru mál yfirleitt minna pólitísk og meira tæknileg eða verkfræðileg. Og þar er líka hefð fyrir sviplitlum fulltrúum meirihlutans.

Yfirleitt hafa borgarstjórar ekki flutt þetta verklag til ráðuneyta, þótt þeir hafi orðið ráðherrar og jafnvel forsætisráðherrar. Í landsmálum eru mörg mál í eðli sínu miklu flóknari, viðkvæmari og pólitískari að eðlisfari og sjónarmið innan flokka geta verið flókin.

Reynslan sýnir, að verklag ríkisstjórnarinnar nær ekki árangri. Hún lendir í ógöngum með mörg stærstu málin og verður afturreka með sum. Undirbúningur að gerð fjárlagafrumvarps fyrir 1993 er bezta dæmið um, að ríkisstjórnin er á villigötum í aðferðafræði.

Almennt má segja, að samráð séu margfalt brýnni í landsmálum en borgarmálum, bæði út um borg og bý og innan veggja Alþingis. Meira en lítið vafasamt er að setja bráðabirgðalög án þess að ráðgast við þingflokksformenn og kveðja saman fundi í þingflokkum.

Einræðishneigð er þó ekki versta hliðin á verklagi ríkisstjórnarinnar. Lélegur undirbúningur mála er verstur. Vinnuskjöl, hugmyndir, reglugerðir og jafnvel lagafrumvörp verða til hjá aðstoðarmönnum, sem lifa í nokkurn veginn sama fílabeinsturni og ráðherrarnir.

Framan af var æðibuna frægust í ráðuneytum heilbrigðis- og menntamála. Þar var farið með offorsi í vanhugsaðan niðurskurð, sem varð síðan að falla meira eða minna frá, með þeirri heildarniðurstöðu, að sparnaður náðist alls ekki í þessum hávaðasömu ráðuneytum.

Heildarniðurstaða afreka ríkisstjórnarinnar á þessum tveimur sviðum er, að þjónusta við notendur hefur minnkað nokkuð, en kostnaður ríkisins hefur samt ekki minnkað. Velferðar- og jafnréttiskerfið hefur verið skert, en ekki hefur sparast af fé skattgreiðenda.

Í sumar hefur verið hliðstæður hamagangur í fjármála- og forsætisráðuneytunum, einkum vegna undirbúnings fjárlaga. Sparnaðurhugmyndir, sem ráðherrarnir þágu úr höndum aðstoðarmanna sinna, reyndust meira eða minna út í hött og eru óframkvæmanlegar.

Ríkisstjórnin hefur kastað fram hugmyndum og tillögum, sem ekki eru hugsaðar fram á miðjan veg og hvað þá til enda. Þær eru rifnar í tætlur úti í bæ, enda virðast hagsmunaaðilar átta sig betur en ungliðar í fílabeinsturninum á ýmsum hliðaráhrifum þeirra.

Dæmin hafa hrannast upp í fjölmiðlum á ofanverðu sumri. Heildarútkoman er, að ríkisstjórnin hefur fallið frá flestum sparnaðarhugmyndum og einbeitir sér að skattahækkunum. Er nú svo komið, að fjármálaráðherra er orðinn að skattakóngi Íslandssögunnar.

Handarbakavinnubrögðin draga úr möguleikum ráðherra til að komast upp með einræðishneigð. Þingmenn stjórnarflokkanna eru farnir að efast meira og meira um getu einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild. Í þingflokkum eykst andóf gegn ríkisstjórninni.

Ástandið er orðið slæmt, þegar ríkisstjórnin er farin að halda langvinna fundi um helgar og nætur og þegar forsætisráðherra telur sig verða að láta slíta þingflokksumræðum án þess að geta sagt að til sé nein niðurstaða, sem þingmenn flokksins fáist til að styðja.

Því oftar sem forsætisráðherra telur sig verða að hóta þingmönnum stjórnarslitum, þeim mun minna vægi er í hótuninni og meira saxast á virðinguna.

Jónas Kristjánsson

DV