Basilica Maxentia
Við göngum framhjá leifunum af hringlaga hofi Romulusar, ekki stofnanda Rómar, heldur sonar Maxentiusar keisara, og beygjum til vinstri að byrðu Maxentiusar og Constantinusar.
Basilica Maxentia e Constantina var reist að mestu 308-312 á vegum Maxentiusar keisara, en fullgerð á vegum Constantinusar keisara. Hún stendur enn að nokkru, gnæfir yfir rústum Rómartorgs og ber vitni um frábæra snilld Rómverja í hvelfingagerð. Þetta var síðasta byrða fornaldar, þriggja skipa og svipuð að flatarmáli og Júlíu- og Emilíubyrður, en voldugri á hæðina. Svipuð tækni var notuð við byggingu hennar og við gerð hinna frægu baðhúsa keisaraaldar.
Arco di Tito
Via Sacra liggur upp að Titusarboga, sem stendur á þrepi, þar sem vegi hallar til beggja átta, til Forum Romanum og til Colosseum. Sigurboginn er í mælirænum hlutföllum og fagurlega skreyttur, reistur árið 81 til minningar um sigra hinna keisaralegu feðga, Vespanianusar og Titusar, á Gyðingum.