Palatino
Hér beygjum við til hægri af Via Sacra og höld
um eftir veginum Clivus Palatinus upp á keisarahæðina.
Elzta byggð í Róm var í svölum hlíðum Palatinum-hæðar. Augustus lét reisa sér keisarahöll, Domus Augustana, í auðmannahverfi, sem var á hæðinni á hans dögum. Eftirkomendur hans færðu út kvíarnar og síðasti keisari Flavia-ættar, Dominitianus, breytti allri hæðinni í keisarahöll, Domus Flavia.
Mjög lítið er nú sjáanlegt af hinum miklu byggingum fornaldar, en duldar gersemar eru vafalaust undir trjám Farnese-garða.
Ef við tökum stefnuna á forngripasafnið, er Domus Augustana á vinstri hönd og Domus Flavia á hægri hönd, síðan Domus Livia og loks Domus Tiberiana.
Domus Flavia
Næst brekkunni niður að Forum Romanum eru leifarnar af heimilishofi keisarans við Clivus Palatinus, síðan af hásætissalnum og loks dómbyrðunni, þar sem keisarinn kvað upp úrskurði sína.
Að baki salanna þriggja er garður, peristyle, upprunalega með súlnagöngum í kring og í miðju átthyrnd tjörn, sem enn sést. Undir sölunum þremur og garðinum eru neðanjarðarsalir.
Handan við peristyle var triclinium, borðstofa keisarans, fegursti salur hallarinnar. Hluti gólfsins hefur varðveizt, lagt marglitum marmara.
Beggja vegna við borðstofuna voru nymphaea. Það, sem er hægra megin, hefur varðveitzt sæmilega. Þetta voru setustofur hallarinnar
Domus Augustana
Stjórnarhöll Augustusar var byggð utan um tvo garða. Sá hærri er vinstra megin framan við forngripasafnið og hinn lægri er að baki þess, einnig vinstra megin. Neðri hæðir hallarinnar gnæfa enn í íhvolfum sveig yfir Circus Maximus handan hæðarinnar.
Vinstra megin við Domus Augustana sést enn leikvangur frá tíma Dominitianusar, upprunalega umluktur tveggja hæða súlnagöngum. Sporbaugurinn í öðrum enda leikvangsins er viðbót frá tíma Þeodoriks Austgotakonungs á 6. öld. Handan leikvangsins eru rústir baðhúss, sem reist var á vegum Maxentiusar keisara.
Domus Livia
Ef við förum þvert gegnum Domus Flavia, komum við að svæði fornleifagraftar. Þar eru leifar musteris, sem Augustus reisti guðinum Apollo. Ennfremur eru þar rústir af Domus Livia, sem var bústaður Augustusar. Veggmyndir hafa verið losaðar af veggjum og settar upp fyrir framan þá, svo að betra sé að virða þær fyrir sér.
Domus Tiberiana
Milli Domus Livia og Forum Romanum eru Farnese-garðar, lagðir á miðri 16. öld ofan á því, sem áður voru rústir keisarahalla Tiberiusar, Caligula, Trajanusar og Hadrianusar. Næst Domus Livia var höll Tiberiusar, en fjærst, þar sem útsýnissvalirnar eru yfir Forum Romanum, var höll Caligula. Hallir Trajanusar og Hadrianusar voru þar inn af, nær Clivus Palatinus. Ekkert sést nú ofanjarðar af höllum þessum, en leifar bogariða sjást í hlíðunum, sem snúa út að Forum Romanum. Undir Farnese-görðum má vafalaust finna fleiri menjar þessara keisarahalla.