14. Forna Róm – Terme di Caracalla

Borgarrölt

Roma, Italy 5 Caracalla baths

Terme di Caracalla

Frá veitingahúsinu eða Colosseum getum við tekið leigubíl til almennings-baðhallar Caracalla eða gengið hálfan annan kílómetra suður frá sigurboga Constantinusar eftir Via di San Gregorio og svo til suðausturs eftir Via delle Terme Caracalla. Voldugir veggir og 30 metra há hvolf baðhallarinnar leyna sér ekki, þegar við nálgumst.

Rústirnar gefa góða mynd af hefðbundnu baðhúsi frá rómverskum tíma, að vísu með óvenjulega stórbrotnu hallarsniði. Það er samhverft um miðju, þar sem voru heit baðstofa, caldarium; volg baðstofa, tepidarium; og köld baðstofa, frigidarium. Beggja vegna við köldu baðstofuna voru búningsklefar og enn utar leikfimisalir, gymnasium.

Terme di Caracalla, Roma

Steinfellugólf í Terme di Caracalla

Beggja vegna við heitu baðstofuna voru þurrgufubaðstofur, laconicum. Þessu fylgdi þaulhugsað kerfi vatns- og hitaleiðsla. Utan um höllina voru garðar, þar sem voru fleiri leikfimisalir og bókasöfn, því að baðhús Rómverja voru um leið félagsmiðstöðvar og menningarmiðstöðvar.

Caracalla keisari og eftirmenn hans létu byggja þessa baðhöll 212-235, lagða marmara og steinfellumyndum, og var hún þá hin stærsta í Róm, með aðstöðu fyrir 1600 manns í einu. Það var notað í rúmar þrjár aldir, unz vatnsrið Rómverja voru mörg hver eyðilögð í árásum þjóðflutningatímans. Þegar menn skoða slíka baðhöll, má minnast þess, að enn meiri mannvirki og enn meiri verkfræðiafrek fólust í hinum feiknarlegu vatnsriðum, sem fluttu vatn úr fjöllunum til borgarinnar og baðhúsa hennar.

Hægt er að ganga um leikfimisali, búningsklefa og köldu baðstofuna. Á þessari leið má sjá falleg steinfellumynztur í gólfum. Miklir hljómleikar eru stundum haldnir í heitu baðstofunni og garðinum fyrir framan hana.

Næstu skref