Kjarkmissir þjóðar

Greinar

Atvinnuleysi er komið upp í 5% á Suðurnesjum, þar sem það er mest á landinu, og stefnir hærra. Búast má við, að það herði með vetrinum og slái metið frá í febrúar í ár, þegar það komst upp í 7%. Þvílíkar tölur hafa ekki sézt frá því í kreppunni miklu fyrir stríð.

Atvinnuleysi hefur aukizt milli ára úr 1,5% í 5% á Suðurnesjum, en úr 1% í 2,5% í landinu í heild. Annars staðar en á Suðurnesjum er atvinnuleysi að mestu bundið við persónur og tímabil, en á Suðurnesjum er nú komið langvinnt atvinnuleysi að erlendum hætti.

Þegar atvinnuleysi fer yfir 2%, er það orðið meira en nemur lausum störfum á móti. Það hættir að vera bundið við fólk, sem getur ekki unnið eða vill ekki vinna, og fólk, sem tímabundið er atvinnulaust milli starfa. Það verður varanlegt atvinnuleysi án vonar.

Kjarkmissir er nýtt og alvarlegt ástand hér á landi. Við búum í þjóðfélagi, sem hefur verið drifið inn í nútímann á takmarkalausri bjartsýni, sjálfstrausti og trú á, að framtíðin muni verða betri en fortíðin var. Þessi óbilandi trú hefur ýtt þjóðinni til átaka og afreka.

Margt hefur farið forgörðum í kapphlaupi þjóðarinnar til nútíma lífskjara. Heilar atvinnugreinar hafa risið í bjartsýni og hnigið til viðar. Eftir stendur, að Íslendingar eru núna ein ríkasta þjóð heims, þótt þeir hafi verið meðal hinna aumustu í Evrópu um síðustu aldamót.

Fyrir tveimur áratugum var Ísland land hinna endalausu möguleika. Fólk sá fyrir sér fiskeldisstöðvar og loðdýrabú, álver og vetnisver, efnaiðnað og ferðaþjónustu, nánast eins og hver vildi hafa. Tækifærin virtust bíða eftir þeim, sem hefðu kjark til að grípa þau.

Fólk fór í langskólanám í sannfæringu og trausti þess, að þörf væri fyrir það. Landið beið eftir verkfræðingum og hagfræðingum og alls konar öðrum fræðingum. Ríkið hafði jafnvel ráð á að búa til og efla stofnanir fyrir rannsóknir og vísindi af margvíslegu tagi.

Nú er öldin önnur. Ekki er lengur óskað eftir langskólagengnu fólki úti í lífinu. Þar á ofan hefur núverandi menntaráðherra gert ráðstafanir, sem stefna ómeðvitað að því, að langskólanám verði eitt af sportum auðstétta, sem börn almennings hafi ekki efni á.

Unga fólkið sér þetta allt. Það sér óvild ráðamanna í garð langskólamenntunar fyrir alþýðuna. Það sér milljarða niðurskurð framfaramála til að gera ráðamönnum kleift að halda uppi milljarðabrennslu í hefðbundnum landbúnaði. Það missir trú á framtíð sína og sinna.

Ungt fólk er um það bil að hætta að trúa, að lífskjör þess verði betri en lífskjör foreldranna. Þetta er í fyrsta skipti, sem slík bjartsýni á stöðugar framfarir fer forgörðum hér á landi. Með hvarfi trúar fylgir hvarf framtaks og áræðis, sjálfstrausts og þekkingarþorsta.

Unga fólkið sér atvinnuleysið aukast allt í kringum sig. Það fer að líta á það sem eðlilegt ástand, þar sem ein kynslóð tekur við af annarri, án nokkurrar marktækrar þátttöku í þjóðfélaginu. Þetta þola ef til vill tugmilljónaþjóðir, en ekki kvartmilljónþjóð norður í höfum.

Hagfræðingar geta ímyndað sér, að á móti þessu komi aukin iðjusemi þeirra, sem ekki vilja missa vinnu sína, og þar með aukin framleiðni fyrirtækja og bætt samkeppnisaðstaða þeirra á alþjóðlegum markaði. Þetta eru þó smámunir miðað við tjónið af kjarkmissi þjóðar.

Þegar atvinnurekendur missa kjark og þegar unga fólkið missir kjark, svo sem sjá má úti um borg og bý og mest á Suðurnesjum, hefur þjóðin lent í vítahring.

Jónas Kristjánsson

DV