Vesturlönd og villimenn

Greinar

Sjálfboðaliðar frá löndum Íslams eru farnir að streyma til Bosníu til að hjálpa varnarlitlum trúbræðrum sínum. Þetta er eðlileg og sjálfsögð afleiðing afskipta Vesturlanda, sem hafa leyft útþenslumönnum Serba að fara sínu fram í þjóðahreinsun í Bosníu.

Ekkert væri heldur við því að segja, að einver ríki Íslams, svo sem Tyrkland, tækju formlega upp stríðshanzkann gegn Serbíu. Ef Atlantshafsbandalagið gerir það ekki og ef Evrópusamfélagið gerir það ekki, hlýtur öðrum að vera leyfilegt að taka upp fána réttlætisins.

Í umræðu á Vesturlöndum ber of mikið á sagnfræðilegri útskýringastefnu, sem felst í, að menn telja 50 ára eða 500 ára gamla harmleiki afsaka glæpi afkomendanna í nútímanum, og spakmælastefnu, sem felst í, að menn telja, að ekki valdi Serbar einir, þegar fleiri deila.

Í raun hafa afskipti Vesturlanda óbeint stutt útþenslu- og þjóðahreinsunarstefnu Serba. Vopnabannið skaðar Bosníumenn mest, því að Serbar hafa greiðan aðgang að öllum vígvélum hins gamla Júgóslavíuhers. Þar að auki eiga Bosníumenn ekki neinar hafnir.

Sameinuðu þjóðunum ber að aflétta vopnabanni á Bosníumenn, en herða viðskipta- og samgöngubann á Serbíu og Svartfjallaland. Þeim ber að hraða stríðsglæparéttarhöldum gegn Serbum. Atlantshafsbandalaginu ber að setja flugbann á hervélar Júgóslavíu.

Bandaríkin hafa hvatt til flugbanns og stríðsglæparéttarhöld eru í undirbúningi. Þetta er allt í rétta átt, en gerist ekki nógu hratt. Vesturlönd verða sem fyrst að ná stöðu, sem segir öðrum villimönnum, að þeir geti ekki leikið eftir brjálæði Serba án þess að tapa.

Harðlínumenn þjóðernissinna í Rússlandi hafa hótað þjóðahreinsunum í Eystrasaltslöndunum og víðar, þegar þeir nái völdum í kjölfar vaxandi óvinsælda og stjórnleysis Jeltsíns Rússlandsforseta. Þeir og aðrir slíkir víðar í Austur-Evrópu fylgjast vel með velgengni Serba.

Það er Atlantshafsbandalaginu og Evrópusamfélaginu lífsspursmál, að sú skoðun fái ekki byr undir báða vængi í Austur-Evrópu, að óhætt sé að fara í þjóðahreinsun að hætti Serba. Öryggi Vestur-Evrópu er undir því komið, að Serbum takist alls ekki ætlun sín.

Þess vegna dugar ekki að frysta ástandið eftir landvinninga Serba, svo sem gert var í Króatíu og virðist vera að gerast í Bosníu. Slík frysting staðfestir ríkjandi ástand eftir landvinninga Serba og er raunar í þeirra þágu. Það hefur vont fordæmisgildi í Austur-Evrópu.

Línan þarf að vera hrein og bein. Serbar hafa framið þá svívirðu í nágrannaríkjunum, að þeir verða algerlega að hverfa þaðan, jafnvel þótt sumir þeirra hafi búið þar. Þeir hafa fyrirgert allri gestrisni. Þeir verða að fara frá Króatíu og Bosníu inn fyrir landamæri Serbíu.

Ennfremur þurfa Vesturlönd að setja skýra reglu um, að Serbum verði ýtt frá ungverska landinu Vojvodina og albanska landinu Kosovo, ef þeir hefja þjóðahreinsun þar. Raunar eru Serbar þegar að byrja í Kosovo, þar sem blóðbaðið verður sennilega meira en í Bosníu.

Vesturlöndum er ekki stjórnað af Churchillum, heldur Chamberlainum, sem veifa pappírum með verðlausum undirskriftum, af því að þeir ímynda sér, að hægt sé að leysa Serbíuvandann með japli og jamli og fuðri. Þeir framkalla afskipti íslamskra ríkja af málinu.

Ef landvinningastríð Serba breytist í trúarstríð og verður fyrirmynd annarra villimanna í Austur-Evrópu, geta leiðtogar Vesturlanda sjálfum sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV