Kjarklaust frumvarp

Greinar

Ríkisstjórnin hefur með nýju fjárlagafrumvarpi gert fjármálaráðherra sinn að skattakóngi Íslandssögunnar annað árið í röð. Skattahlutfallið hækkar milli ára úr 26,8% í 26,9%. Fara menn nú senn að sakna fyrrverandi fjármálaráðherra, sem kom hlutfallinu aðeins í 26,3%.

Ráðherrann hefur sér til afsökunar, að dregist hefur saman landsframleiðslan, sem skatturinn er tekinn af og skattahlutfallið miðað við. Alþekkt tregðulögmál ríkisfjármála gerir ríkinu erfitt um vik að draga saman seglin, þegar harðnar í ári hjá þjóðinni í heild.

Ástandið er engan veginn eins og í Færeyjum. Þar varð landsstjórnin óbeint að segja sig til sveitar hjá danska ríkinu og verður að semja ný og raunhæfari fjárlög undir eftirliti hagfræðinga Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hurð landssjóðsgjaldþrots skall þar nærri hælum.

Þótt íslenzku ríkisstjórninni vegni að þessu leyti betur en færeysku landsstjórninni, er fjárlagafrumvarpið markað hugleysi, sem gat gengið í blíðviðrinu, en sker í augu, þegar þjóðarskútan er lent í stórsjó. Það einkennist af uppsöfnuðu kroppi í marga þætti ríkisútgjalda.

Miklu áhrifameira og í rauninni sársaukaminna er að skera stóra og skaðlega útgjaldaliði niður við trog. Þar er efstur og bólgnastur á blaði hinn hefðbundni landbúnaður, sem kostar skattgreiðendur átta milljarða króna á næsta ári og neytendur tólf milljarða að auki.

Með því að skera ríkisútgjöld til hins hefðbundna landbúnaðar og leyfa innflutning ódýrrar búvöru er hægt að bæta lífskjör þjóðarinnar um leið og hallinn á ríkissjóði er strikaður út. Í stað þess kroppar ríkisstjórnin mildilega utan í þennan skaðlega útgjaldalið.

Af því að ríkisstjórnin hefur ekki þor til að hreyfa rækilega við útgjöldum til hefðbundins landbúnaðar, verður hún að ráðast að útgjaldaliðum, sem eru í sjálfu sér nytsamlegir, eins og ýmsum þáttum skólamála og heilsugæzlu, sem stuðla að betri framtíð þjóðarinnar.

Margvíslegt kropp utan í útgjaldaliði minnir að sumu leyti á fyrri tilraunir til flata niðurskurðarins, sem var oft og árangurslaust reyndur á fyrri árum. Er skemmst að minnast, að ekki tókst á þessu ári að skera niður heilbrigðisútgjöld, þrátt fyrir sáran hamagang.

Óhætt er að slá föstu, að margt af slíkum niðurskurði muni ekki ná fram að ganga í reynd, af því að tölum í fjárlagafrumvarpi fylgja ekki fyrirmæli um, hvernig eigi að standa að honum. Enn einu sinni er boðið upp á dansinn: Farið þið fram úr fjárlögum.

Þessu fylgja tilraunir til sjónhverfinga, sem stappa nærri geðklofa, eins og þegar ríkisstjórnin gælir með annarri heilahliðinni við að skera niður vegaframkvæmdir á fjárlögum og með hinni hliðinni við að auka þær jafnframt með sérstökum atvinnubótaaðgerðum.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að setja rekstur ferja og flóabáta á vegasjóð og draga þar með úr getu hans til vegagerðar um sömu upphæð. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuleysi á hins vegar að taka lán til að búa til atvinnubótavinnu í vegagerð.

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 1993 felur ekki í sér, að látið sé reka á reiðanum eins og fyrsta fjárlagafrumvarp færeysku landsstjórnarinnar. En það felur ekki heldur í sér, að ríkisstjórnin hafi kjark til að haga fjármálum í stíl við erfiða tíma.

Frumvarpið fer bil beggja og kroppar dálítið í marga útgjaldaliði. Það setur þjóðina ekki á hausinn, en gerir henni erfitt fyrir í þrengingum, sem standa fyrir dyrum.

Jónas Kristjánsson

DV