11. Miðbær syðri – Piazza Venezia

Borgarrölt

Piazza Venezia

Við göngum áfram eftir Corso Vittorio Emanuele II og í framhaldi af henni Via del Plebiscito alla leið til Feneyjatorgs, miðtorgs borgarinnar, þar sem höfuðbrautir hennar skerast og þar sem umferðarhnútar verða verstir. Allar leiðir leigubíla virðast þurfa að liggja um þetta torg.

Á hægri hönd okkar er Palazzo Venezia, byggð 1455-1471 á vegum páfans Páls II, sem bjó hér. Síðan bjuggu hér margir páfar, svo og Karl VIII Frakkakonungur og Mussolini hafði hér skrifstofur sínar. Hér kom hann fram á svalirnar og talaði til lýðsins. Undir svölunum er helzti staður stefnumóta í borginni. Nafn hallarinnar kemur frá þeim tíma, er sendiherrar Feneyja bjuggu í hluta hallarinnar.

Andspænis henni við torgið er 20. aldar höll, sem dregur dám af Feneyjahöll.

Höllin er fyrsta borgaralega mannvirkið í endurreisnarstíl í Róm. Í stílnum eru miðaldaminni, svo sem hinn voldugi hornturn, en endurreisnartíminn kemur meðal annars fram í póstagluggum hallarinnar og tvöföldu súlnariði framhliðar hallarkirkjunnar til hliðar við turninn.

Kirkjan sjálf er raunar eldri en höllin, upphaflega frá 336, en endurbyggð á 9. öld. Að innan er hún mikið skreytt í stíl ýmissa tímabila. Höllin er líka mikið skreytt hið innra, þótt hún líti hófsamlega út að utanverðu. Í henni er frægur hallargarður og safn listmuna frá miðöldum.

Næstu skref