Kerfið verndar ofbeldi

Greinar

Dómarinn, sem sleppti fjórum nauðgurum við fangelsisvist fyrir helgina, hafði áður dæmt mann í tveggja ára fangelsi fyrir 200 þúsund króna plastkortasvik, hvort tveggja samkvæmt lögum. Dómari þessi hefur í ýktri mynd sýnt verðmætamatið í lögum og dómum á Íslandi.

Nauðgunin, sem dómarinn samþykkti, var óvenju ógeðsleg, því að fjórir menn réðust á eina stúlku og héldu henni, meðan einn þeirra nauðgaði henni. Vafalaust mun ákæruvaldið kæra hinn fráleita úrskurð til Hæstaréttar eins og aðra úrskurði þessa dómara.

Þótt dómari þessi sé þekktur fyrir sérkennilega dóma og seinagang í starfi, má ekki gleyma því, að hann gengur laus sem dómari. Hann hefur fengið áminningar, en heldur áfram að dæma. Hinir athyglisverðu úrskurðir hans njóta því töluverðrar verndar í kerfinu.

Ekki má gleyma, að dómarinn úrskurðar innan þess ramma, sem dómara er leyfilegur, bæði þegar hann sleppir nauðgurum og neglir smáþjófa. Hann gengur ekki þvert á lög og dóma, heldur skrumskælir aðeins aldagamalt réttarfar, sem viðgengst á tuttugustu öld.

Lög og dómvenja á Íslandi er arfleifð frá þeim tíma, þegar tilgangur laganna var fyrst og fremst að vernda auð yfirstéttarinnar fyrir ásælni undirstéttanna, en ekki að koma í veg fyrir, að undirstéttarfólk beitti hvert annað ofbeldi. Peningar eru æðstir í þessu verðmætamati.

Ekki þarf að fara í dómsal Hafnarfjarðar til að sjá dæmi um þessa brenglun í verðmætamati. Í dómum Hæstaréttar kemur líka fram, að fjármálaglæpir þykja alvarlegri en ofbeldisglæpir. Þetta er í samræmi við lög, sem eru arfur frá tímum frumstæðara verðmætamats.

Fjölmiðlar taka því miður þátt í þessari brenglun. Maður, sem stelur milljón, en skaðar hvorki sál né líkama neins, fær nafn og mynd í fjölmiðlum, en fjórir menn, sem nauðga stúlku, fá hvorki nafn né mynd. Fjölmiðlar telja milljónina verðmætari en stúlkuna.

Lögreglan er á sömu nótum og fjölmiðlarnir, útvegar myndir af smáþjófum, en leggst á myndir af ofbeldismönnum. Til skamms tíma var Reykjavík fræg fyrir, að þar óðu þekktir ribbaldar um að næturlagi og börðu vegfarendur, næsta óáreittir af lögreglu.

Verðmætamatið lýsir sér einnig í yfirgengilegum stuðningi þjóðarinnar við ölvun og ölæði. Haldnar eru bjórhátíðir, þar sem menn eru hópum saman afvelta og meðvitundarlausir. Alls konar ræfildómur og ofbeldi er afsakað með orðunum: “Hann var fullur, greyið.”

Drykkjurútarnir vaða um allt þjóðfélagið. Sumir sitja í ráðherrastólum, en aðrir sofa í ónotuðum bátum. Sumir verða sér til skammar kjólklæddir í kóngaveizlum, en aðrir nauðga stúlkum og misþyrma. Hafa þeir svo allir nokkuð að iðja í skjóli laga og réttar.

Eftir innreið eiturlyfja í þjóðfélagið hefur vandamálið aukizt. Læknar fá að afgreiða eftirritunarskyldar lyfjaávísanir á færibandi. Og nafgreindir menn aka um á fínum bílum fimm árum eftir að hafa játað innflutning á 65 kílóum af eitri, án þess að hafa sætt neinum dómi.

Alþingi þarf að manna sig upp í hreinsun lagaákvæða um viðurlög við afbrotum: Auka þarf vægi lífs og lima í samanburði við vægi króna og pappíra. Slík hreinsun getur síðan orðið forsenda nútímalegra og siðlegra verðmætamats í úrskurðum héraðsdóma og Hæstaréttar.

Ekki er nóg að beina spjótum að einum dómara í Hafnarfirði, því að sérvizka hans rúmast innan ramma úreltra ákvæða í lögum. Kerfið sjálft hefur brugðizt.

Jónas Kristjánsson

DV