Enginn fer með raunveruleg völd í landinu um þessar mundir. Ríkisstjórnin neitar að taka við þeim úr höndum helztu aðila vinnumarkaðarins, sem hafa farið með þau í rúmar tvær vikur án þess að ná samstöðu um aðgerðir. Hún segist bíða eftir tillögum þeirra.
Þegar á reyndi, þótti launamannaarmi byltingarliðsins sem atvinnurekendaarmurinn ætlaði að seilast of langt í vasa launamanna við að breyta skattlagningu á fyrirtæki yfir í skattlagningu á almenning. Launamannaarmurinn fékk því bakþanka í byltingunni.
Í fyrstu virtist sem valdaránið mundi takast, því að það var stutt þingmönnum úr stjórnarliðinu, sem vildu, að horfið yrði frá þeirri braut að leyfa fyrirtækjum og byggðarlögum að verða gjaldþrota og að halda verðbólgu og krónugengi föstu í aðvífandi kreppu.
Byltingarliðið er ennþá nokkurn veginn sammála um, að rjúfa verði ríkjandi kreddu og innleiða í þess stað fyrri kreddu, sem felur í sér, að fyrirtæki og byggðarlög megi helzt ekki verða gjaldþrota og að nota megi hin hefðbundnu stjórntæki verðbólgu og gengislækkana.
Byltingarliðið var ennfremur sammála um, að eðlilegt væri, að eitthvað af skattabyrðum atvinnulífsins færi yfir á herðar launafólks. Hins vegar virðist byltingin hafa farið af stað, án þess að óformlegt samkomulag væri um, hversu langt mætti ganga á þessu sviði.
Höfuðgarpar byltingarinnar eru í Atvinnumálanefnd, þar sem ráðuneytisstjóri forsætisráðherra stjórnar fundum. Þeir hafa legið niðri á byltingartímanum, en nú eru einstakir byltingarmenn farnir að kalla eftir fundi á þeim dæmigerða vettvangi þjóðarsáttar.
Líklegt má telja, að ríkisstjórninni takist að tefla taugastríðið við atvinnulífið á þann hátt, að samkomulag náist um síðir á vettvangi Atvinnumálanefndar um þjóðarsátt, sem taki jafnmikið eða meira tillit til kreddu ríkisstjórnarinnar en kreddu byltingarsinna.
Við flestar aðstæður er hagstætt að hafa stjórnleysi á borð við það, sem nú ríkir. Engar mikilvægar ákvarðanir eru teknar og þar með sparast kostnaðurinn, sem reynslan sýnir, að fylgir öllum mikilvægum ákvörðunum. Fólk fær að ganga til starfa sinna í friði.
Því miður er núverandi stjórnleysi ekki í anda taóismans, heldur er það bara logn fyrir storm mikilvægra handaflsaðgerða, sem munu gerbreyta aðstæðunum, sem fólk og fyrirtæki starfa við. Þessar handaflsaðgerðir munu taka gildi með nýjum fjárlögum um áramót.
Það er sama, hversu mikið af hvaða kreddum verður ofan á í yfirvofandi handaflsaðgerðum. Niðurstaðan verður enn eitt áfallið fyrir alla, sem vilja áætla fram í tímann fyrir sínar fjölskyldur eða sín fyrirtæki. Hún er enn ein staðfesting þess, að marklaust sé að áætla.
Tæpum tveimur mánuðum fyrir áramót veit enginn, hvort aðstöðugjald verður til um áramót, hver skattþrep verða í tekjuskatti og útsvari, hve mörg þrep verði í virðisaukaskatti og hvaða vörur og þjónusta falli undir hvert þrep. Fjárlagafrumvarpið er nafnið eitt.
Þetta er alger andstæða við friðsælt aðgerðaleysi taóismans og hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Þetta er taugaveiklaða lognið fyrir storm nýrra handaflsaðgerða að hætti miðstýringarhyggju. Þetta er hvatning þess, að fólk og fyrirtæki leggi árar í bát.
Valdapattstaðan og nagandi óvissa um opinbert handafl allra næstu vikna kæfir íslenzkt framtak og framleiðir margfalt meiri kreppu en efni standa til.
Jónas Kristjánsson
DV