Mikilvæg fríverzlun

Greinar

Evrópska efnahagssvæðið mun efla hag Íslands eins og annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna. Í nágrannalöndunum er talað um 5% hagvöxt af völdum aðildarinnar að þessum stærsta markaði heims, sem spannar um 40% allra heimsviðskipta um þessar mundir.

Við munum njóta lækkunar á tollum á ýmsum mikilvægum afurðum sjávarútvegs. Þar á ofan neyðast íslenzk stjórnvöld til að beita skynsamlegri hagstjórn í meira mæli en verið hefur, þannig að almannahagsmunir víki sjaldnar fyrir sérhagsmunum en verið hefur.

Við fáum að taka þátt í evrópska markaðinum án þess að taka á okkur greiðslur til millifærslusjóða Evrópusamfélagsins. Við þurfum ekki að borga hlut í landbúnaðarstefnu Evrópusamfélagsins og við þurfum ekki að taka þátt í viðskiptastyrjöldum þess út á við.

Við þurfum ekki að gera Ísland að sjálfboðaliða í tollamismunun gagnvart ríkjum utan Evrópu. Við þurfum ekki að hækka tolla gagnvart Bandaríkjunum og Japan til að afla fjár í tollalækkun gagnvart Evrópu. Ef við gerum slíkt, er það í hreinni sjálfboðavinnu.

Vandamál okkar af þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu stafa að litlu leyti af samningi okkar um hana, en að miklu leyti af lélegum og illum undirbúningi aðildarinnar af hálfu ráðamanna þjóðarinnar og embættismanna, svo sem fyrirhuguð tollabreyting sýnir.

Evrópska efnahagssvæðinu fylgja ýmis vandamál, sem ríkisstjórn okkar og embættismenn hafa ekki tekið nógu föstum tökum. Ekkert vitrænt hefur verið gert til að treysta yfirráð þjóðarinnar yfir landi sínu og auðlindum sínum og hamla gegn innflutningi fólks.

Í tilefni aðildar að efnahagssvæðinu eigum við að setja lög, sem skilgreina eignarhald þjóðarinnar á fiskimiðum, þannig að ljóst sé, að þau séu ekki eign skipa eða útgerðarfélaga. Við getum varið auðlindina með því að gera greinarmun á eign og nýtingarrétti.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina umgengnisrétt um land, ár og vötn, svo og um félagslegt og óframseljanlegt eignarhald á óbyggðum svæðum, svo sem afréttum. Í stórum dráttum nægir okkur að ítreka fornar reglur um slík málefni.

Í tilefni aðildarinnar eigum við einnig að setja lög, sem skilgreina íslenzku sem ríkismál á þann hátt, að réttur til starfa og búsetu sé háður því skilyrði, að menn tali íslenzku, nema sérstakar undanþágur séu veittar. Þannig má koma í veg fyrir of mikinn innflutning fólks.

Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig á þessum sviðum. Hún ætlar að láta Alþingi samþykkja í þessum mánuði, að þjóðin gangi á nærklæðunum inn í Evrópska efnahagssvæðið. Hún tekur ekki nógu alvarlega þau vandamál, sem bent hefur verið á, að fylgi efnahagssvæðinu.

Þetta eru sjálfskaparvíti og sjálfboðavinna, en ekki nein skylda okkar gagnvart samningsaðilum í Evrópu. Þetta eru heimatilbúin mál, sem kjósendur þurfa að muna, er ráðamenn leita að nýju eftir umboði til að halda áfram að rugla og drabba málum þjóðarinnar.

Evrópska efnahagssvæðið er í sjálfu sér gott framfaramál, sem á að vera okkur tilhlökkunarefni, þótt við kysum að vera betur undir það búin. Það gefur okkur viðskiptamöguleika og markaðsvonir, sem við getum nýtt okkur, ef við höfum til þess kjark og dug.

Lélegur og illur undirbúningur af hálfu ráðamanna og embættismanna okkar er áhyggjuefni, en ekki næg ástæða til að hafna aðild að mikilvægri fríverzlun.

Jónas Kristjánsson

DV