Via Veneto
Frá Porta Pinciana förum við að öðrum kosti niður eftir Via Vittorio Veneto, hina hefðbundnu hótelgötu borgarinnar og tízkugötu hennar á blómaskeiði ítalskra kvikmynda. En hún er tæpast lengur miðstöð Rómartízkunnar. Þetta er breið gata, sem skartar trjám og þekktum kaffihúsum, svo sem Café de Paris á 90 og Doney á 145. Umhverfis hana er Ludovisi-hverfið, sem þekkt er að auðlegð. Gatan liggur í sveigum niður á Piazza Barberini.
Nokkur góð matsöluhús eru í götunum vinstra megin við Via Veneto, svo sem Girarrosto Toscano á Via Campania 29, Andrea á Via Sardegna 28c og Cesarina á Via Piemonte 129.
Palazzo Barberini
Á Piazza Barberini er brunnur eftir Bernini, Fontana Tritone, frá 1642, og sýnir fjóra höfrunga bera hörpuskel, er á situr sjávargoð, sem blæs í kuðung.
Við torgið er Palazzo Barberini, hönnuð af hinum tveimur stóru nöfnum hlaðstíls, Bernini og Borromini, reist 1629-1633. Framhliðin er eftir Bernini og ýmsar skreytingar eftir Borromini.
Í höllinni er safn listaverka, Galleria Nazionale d’Arte Antica, á 1. hæð frá 13.-16. öld og á 2. hæð frá 17.-18. öld.