11. Miðbær eystri – San Andrea al Quirinale

Borgarrölt

San Andrea al Quirinale

San Andrea al Quirinale, Roma 2

San Andrea al Quirinale

Við göngum eftir Via del Quirinale meðfram forsetahöllinni. Miðja vega hallarinnar, handan götunnar, er sporöskjulaga og lítil einskipabyrða, hönnuð í hlaðstíl af Bernini 1668, fyrirmynd margra kirkna. Þetta er jesúítakirkjan San Andrea al Quirinale, sem Bernini taldi bezta verk sitt.

Kirkjan er meiri á þverveginn en langveginn. Að götunni snúa sveigðar tröppur og sveigð súlnaverönd undir stórum gaflaðsþríhyrningi. Bókrolluvindingar styðja að hvolfinu úr öllum áttum. Að innan er kirkjan klædd bleikfikróttum og mislitum marmara, hóflega skreytt og með reitamynztri í hlutfallslega háu hvolfi.

San Andrea al Quirinale, Roma

San Andrea al Quirinale

San Carlo alle Quattro Fontane

Sömu megin götunnar, nær enda Palazzo del Quirinale, er önnur lítil kirkja eftir hinn höfuðpáfa hlaðstíls, Borromini, reist að mestu 1638-1640.

San Carlo alle Quattro Fontane er fyrirmynd margra kirkna eins og San Andrea og einnig sporöskjulaga að grunnfleti, en hér er kirkjuskipið á langveginn. Einkenni kirkjunnar eru sveiglínur og gagnsveiglínur, hvolfar og íhvolfar, svo og stærðfræðileg nákvæmi í allri útfærslu.

Hér á horni Via del Quirinale og Via delle Quattro Fontane eru fjórir brunnar, hver undir sínu húshorni. Frá miðju horninu er útsýni eftir beinum götum til fjögurra átta að fjórum einsteinungum, sem eru á Piazza Trinità dei Monti, Piazza Porta Pia, Piazza del Esquilino og Piazza del Quirinale.

Næstu skref