Herculanum
Frá Napoli eru 10 km til Herculanum, 5000 manna fiskimannaþorps, sem drukknaði í leðju, þegar Vesuvius gaus árið 79. Þorpið er mun minna og fátæklegra en Pompei, en hefur það fram yfir, að timbur hefur sums staðar varðveitzt með því að steingervast í 12 metra djúpri leðju. Heilu húsin hafa raunar varðveitzt með timbri, eldunaráhöldum og húsgögnum.
Uppgröfturinn er um 150×250 metrar að flatarmáli. Þrjár aðalbrautir liggja samsíða um bæinn og tvær aðalbrautir þvert á þær. Bezt er að fara fyrst í Casa dell’Albergo, sem er rétt við tröppurnar niður í rústirnar, fara síðan þaðan yfir í götuna Cardo IV upp að aðaltorginu Forum, og loks til baka aftur eftir götunni Cardo V. Skynsamlegt er að fá leiðsögumann og segja honum, hve mikinn tíma þú hefur.
Þarna má meðal annars sjá steinfellumyndir í gólfum, baðhús bæjarins með aðskildum svæðum fyrir kynin, verzlanir með afgreiðsluborði við götu, höggmynd af hjartardýrum og hálfbrunnin húsgögn.