Sameiginleg þjóðarsekt

Greinar

Stundum er sagt, að veraldarsagan hefði orðið önnur, ef Stalín hefði getað haldið áfram að læra til prests og Hitler fengið að fara í myndlistarskólann. Ekkert er hægt að segja með vissu um áhrif tilviljana af slíku tagi, svo sem um áhrif einstaklinga á framvindu sögunnar.

Eftir síðari heimsstyrjöldina var litið svo á, að Þjóðverjar bæru sameiginlega ábyrgð á henni, en ekki Hitler einn eða flokkur hans. Þjóðverjar álitu raunar sjálfir, að þeir yrðu að gera bragarbót, til dæmis með skaðabótum og nýju og borgaralegu uppeldi í her og skóla.

Japanir hafa aldrei hreinsað sig að hætti Þjóðverja, heldur þrjózkast enn við að reyna að falsa sagnfræðina og líta niður á nágrannaþjóðir sínar. Þeir hafa sem þjóð ekki tekið neina marktæka ábyrgð á stríðinu aðra en þá að hafna því að verða herveldi á nýjan leik.

Þegar ástandið var sem verst í Ísrael fyrir síðustu kosningar, var sagt, að hryðjuverkum og stríðsglæpum ríkisins mundi linna, ef Likud-bandalaginu og stuðningsflokkum þess yrði bolað frá völdum. Í ljós kom, að lítið breyttist, þótt Verkamannaflokkurinn tæki við.

Her og lögregla Ísraels stunda daglega stríðsglæpi á hernumdu svæðunum, samkvæmt skilgreiningu Genfarsáttmálans um meðferð fólks á slíkum svæðum. Nauðungarflutningar fólks frá heimilum sínum eru bara hluti af breiðu og daglegu ferli stríðsglæpa Ísraels.

Herraþjóðarhrokinn gegnsýrir þjóðfélag Ísraels. Litið er á Palestínumenn sem hunda, er megi ekki verja sig. Aðgerðum af þeirra hálfu er svarað með margföldum hefndaraðgerðum. Hæstiréttur brýtur Genfarsáttmálann og forsetinn náðar morðingja úr her og lögreglu.

Komið hefur í ljós, að Yitzhak Shamir forsætisráðherra bar ekki einn ábyrgð á stríðsglæpum og hryðjuverkum Ísraels. Þjóðfélagið í heild virðist telja sig vera af sagnfræðilegum ástæðum undanþegið ýmsum skráðum lögum, sem gilda um hinn siðmenntaða hluta heims.

Athyglisvert er, að þjóðfélag, sem stundar daglega stríðsglæpi í nútímanum, telur sér samt kleift að halda áfram að elta uppi hálfrar aldar gamla stríðsglæpi alla leið til Íslands. Þetta ber vott um brenglun, sem er ekki bara í höfði einstaklinga, heldur í þjóðarsálinni.

Ekki er heldur hægt að segja, að Slobodan Milosevic forseti sé einn ábyrgur fyrir voðaverkum Serba á hernumdum svæðum í nágrannalöndunum. Það þarf þúsundir brjálæðinga til að myrða hundruð þúsunda óbreyttra borgara og nauðga tugum þúsunda kvenna.

Alveg eins og í Ísrael er í Serbíu um að ræða sameiginlega þjóðarábyrgð á brenglun í þjóðarsálinni. Þjóðin hefur ræktað með sér sagnfræðiskoðun, sem losar hana undan siðareglum hins vestræna heims. Hún er sumpart að hefna fimm og sex alda gamalla atburða.

Þetta átti að verða mönnum ljóst um leið og Serbar byrjuðu að sprengja menningarsöguleg mannvirki, til dæmis í Dubrovnik, til að eyðileggja menningararf andstæðinga sinna. Tryllt ofbeldi þeirra gegn almenningi er beint framhald af árás þeirra á menningarsöguna.

Brjáluð þjóð verður ekki hamin með samningum að undirlagi Sameinuðu þjóðanna. Hún verður aðeins kúguð með hervaldi, sem leiði til, að hún hverfi frá Bosníu og Króatíu, Vojvodina og Kosovo, og landamærunum síðan lokað, unz þjóðin tekur ábyrgð á glæpum sínum.

Ofbeldi Ísraela og Serba er brenglað þjóðernisofstæki, sem þjóðirnar í heild bera ábyrgð á, en stafar ekki af, að einstaklingar hafi lent á rangri hillu.

Jónas Kristjánsson

DV