8. Útrásir – Capri

Borgarrölt

Capri

Marina Grande, Capri

Marina Grande, Capri

Utan við Sorrento-skaga er Capri, sæbrött klettaeyja, 6×3 km, með mildri veðráttu og ríkulegum gróðri, eftirsóttur dvalarstaður allt frá tíma rómversku keisaranna.

Aðalþorpið á eynni heitir líka Capri og er uppi á hrygg milli fjalla, með hafnir á báða vegu, Marina Piccola í suðri og Marina Grande í norðri, þar sem ferðamenn koma til hafnar. Austar á eynni og enn hærra er annað þorp, Anacapri, tengt aðalbænum með vegi, sem liggur um bratta kletta.

Engir einkabílar eru á Capri, aðeins litlir strætisvagnar, leigubílar og rafhjól, sem flytja vörur og farangur. Flestar götur í þorpinu eru göngugötur, sumar hverjar með engum húsum í sömu hæð, en bröttum tröppum upp í hús fyrir ofan og niður í hús fyrir neðan. Frá aðaltorginu, Piazza Umberto I eru stuttar gönguleiðir til útsýnisstaða á borð við Cannone Belvedere, Tragara Belvedere og Giardini Augusto, svo og löng og brött gönguleið upp til rústanna af höll Tiberiusar keisara, sem húkir efst uppi á kletti.

Næstu skref