Kreppan í þjóðarsálinni

Greinar

Skýringa á kreppunni, sem einkennir Ísland umfram önnur Vesturlönd, er ekki að finna í minnkuðu verðmæti sjávarafla. Það verðmæti var í fyrra hið sama og það var fjórum árum áður, árið 1988, Í bæði skiptin nam útflutningsverðmæti sjávarafla 73 milljörðum á núvirði.

Milli þessara ára var kúfur í verðmætinu, sem fór í 80 milljarða árið 1990. Frá þeim toppi er samdrátturinn um 10%. Það er mikill samdráttur á skömmum tíma, þótt hann sé ekki mikill, ef litið er til lengri tíma. Hann skýrir ekki einn atvinnuhrunið í landinu á þessum vetri.

Sjávarútvegurinn er ekki eini atvinnuvegurinn í landinu. Samdráttur hans hefur töluverð áhrif á þjónustu- og viðskiptagreinarnar í kringum hann, en minnkandi, þegar komið er lengra frá. Keðjuverkun frá sjávarútvegi skýrir ekki allan samdráttinn í þjóðfélaginu.

Við bætast áhrif frá samdrætti á sviðum, sem byggð voru upp af óforsjálu handafli hins opinbera fyrir nokkrum árum, svo sem í fiskeldi. Það átti að verða gullkista þjóðarinnar, en hefur nú gengið gegnum hreinsunareld, sem veldur þjóðinni eins konar timburmönnum.

Þegar allt lék í lyndi í sjávarútvegi og fiskeldi, lánuðu bankar ógætilega, af því að þeim var illa stjórnað. Nú óttast ráðamenn þeirra afleiðingarnar og seilast til mikils vaxtamunar til að greiða tjón afskrifaðra lána. Þetta heldur uppi vöxtum í landinu og magnar kreppuna.

Við þetta bætist, að tækifæri góðæris og fullrar atvinnu var ekki notað til að leyfa hinum hefðbundna landbúnaði að rifa seglin til að lækka kostnað þjóðfélagsins af dýrstu atvinnubótavinnu, sem hugsazt getur. Nú kemur sá óhjákvæmilegi samdráttur ofan í kreppuna.

Samanlagt eru afleiðingar gæludýrastefnu stjórnvalda og fjármálastofnana þyngri þáttur í kreppunni en samdrátturinn í verðmæti útfluttra sjávarafurða. Kreppan stafar þannig að stærri hluta af heimatilbúnum ástæðum en af náttúrulegum skilyrðum í hafinu.

Ekki má heldur gleyma, að minnkandi verðmæti sjávarafla er einnig mannanna verk. Þessi samdráttur stafar af óhóflegri veiði, sem óforsjál stjórnvöld hafa ákveðið í trássi við tillögur fiskifræðinga, er einnig hafa verið of bjartsýnar vegna þrýstings frá atvinnulífinu.

Þegar kreppa kemst á nógu hátt stig, fer hún að fæða sjálfa sig. Fólk tapar kjarki. Ráðamenn fyrirtækja mikla fyrir sér aðsteðjandi erfiðleika og segja fólki upp vinnu, svo að fyrirtækin geti mætti framtíðinni með minnkuðum kostnaði. Þetta verður að öflugri keðjuverkun.

Að svo miklu leyti sem kreppan er ekki búin til í leðurstólum stjórnvalda og bankakerfis er hún sálræn. Hún felur í sér, að væntingar minnka og svartsýni eykst. Umtalið magnar kreppuna. Menn éta krepputalið upp hver eftir öðrum og magna hana hring eftir hring.

Íslendingar munu lifa af þessa kreppu, sem er fremur sálræn og pólitísk en efnisleg. Þjóðin hefur aldagamla reynslu af hörmungum og óáran. Hún er vel í stakk búin að mæta erfiðum tímum, þótt hún hafi ekki reynzt hafa nógu sterk bein til að þola góðu dagana.

Út úr kreppunni munu koma stjórnmálamenn og bankastjórar, sem verða forsjálli en þeir hafa verið hingað til. Út úr henni munu koma framkvæmdamenn með þjálfun í hagræðingu og sparnaði. Út úr henni mun koma þjóð, sem skilar meira og betra verki fyrir laun sín.

Hin heimatilbúna kreppa fer vaxandi. En handan við hornið bíður nýtt góðæri eftir kjarki og forsjálni þjóðarinnar til að stíga út úr hinum sálræna þætti kreppunnar.

Jónas Kristjánsson

DV