Skárra er að vera inni

Greinar

Eðlilegt framhald af staðfestingu Alþingis á samningi Íslands um Evrópska efnahagssvæðið er, að við fetum í fótspor annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna og göngum með þeim inn í sjálft Evrópusamfélagið, en frestum því ekki til síðari tíma og lakari kjara.

Mælanlegur efnahagsgróði verður minni af Samfélaginu en Svæðinu, en þeim mun meiri efnahagstrygging í viðsjárverðum viðskiptaheimi. Við þurfum að ganga í Evrópusamfélagið, svo að það skaði okkur ekki eins og það skaðar allt sitt umhverfi í austri, vestri og suðri.

Skilningur okkar á Evrópusamfélaginu og gildi aðildar okkar að því verður meiri, ef við lítum á það og umgöngumst það eins og risavaxið landbúnaðarráðuneyti. Það er gróf samlíking, en eigi að síður rétt í veigamiklum atriðum, sem varða okkur sérstaklega mikið.

Íslenzka landbúnaðarráðuneytið er ekki stjórnvald í hefðbundnum skilningi. Það er um leið kynningar- og áróðursstofnun fyrir hinn hefðbundna landbúnað og baráttutæki hans gegn almannahagsmunum í þjóðfélaginu, einkum hagsmunum skattgreiðenda og neytenda.

Á svipaðan hátt eru ráðuneyti Evrópusamfélagsins leikvöllur þröngra sérhagsmuna. Þau ríki, sem komin eru inn í hið evrópska himnaríki, nota Samfélagið til að þjónusta gæludýrin sín. Þar gildir þetta einkum um landbúnað, en einnig um sjávarútveg sem skylda grein.

Þessi blanda stjórnvalds og þrýstihóps veldur því, að Evrópusamfélagið kemur nær hvarvetna fram sem ofbeldisstofnun í umhverfi sínu. Það neitar sanngjörnum viðskiptum og samningum til þriggja átta, þótt það hafi samþykkt að stækka sig til norðurs, í okkar átt.

Evrópusamfélagið hefur reist tollmúra í austri, vestri og suðri. Það meinar Austur-Evrópu að afla sér gjaldeyris til uppbyggingar með því að gefa evrópskum neytendum kost á ódýrum mat. Það meinar þriðja heiminum að lækka matvöruverð í Evrópu í sama skyni.

Alvarlegust er þó ofbeldishneigð Evrópusamfélagsins í garð Bandaríkjanna, eins og komið hefur fram í langdregnum viðræðum í Gatt, alþjóðlega tollaklúbbnum, þar sem rambað var í sífellu á yztu nöf til að reyna að koma í veg fyrir minni háttar aukningu á tollfrelsi.

Varðgæzla sérhagsmuna af hálfu Evrópusamfélagsins gengur svo langt, að líta má á Samfélagið sem eina helztu ógnunina við heimsfriðinn um þessar mundir, því að viðskiptastríð milli Vesturlanda getur hæglega leyst af hólmi kalda stríðið milli austurs og vesturs.

Í meginlöndum Evrópusamfélagsins ráða menn, sem hafa engin pólitísk markmið önnur en eigið endurkjör og finna enga þörf til að marka sér stöðu í veraldarsögunni. Þetta eru pólitíkusar á borð við Kohl, Mitterrand og Mayor. Slíkir munu ekki breyta Evrópuskrímslinu.

Sjávarútvegur í löndum Evrópusamfélagsins er þvílíkur ómagi á kerfinu, að búast má við stöðugum tilraunum þess til að beita okkur ofbeldi í fiskveiðum og fiskvinnslu. Hætta er á, að sérhagsmunir fái þar að leika lausum hala eins og í okkar landbúnaðarráðuneyti.

Bezta leiðin til að verja hagsmuni okkar gegn þessu skrímsli er að gerast aðilar að því og gerast um leið aðilar að þeirri varðgæzlu sérhagsmuna í sjávarútvegi, sem þar er stunduð. Þetta minnir óbeint á máltækið um, að heiðra skuli skálkinn, svo að hann skaði þig ekki.

Þetta eru ekki fagrar forsendur, en eigi að síður gildar. Staðreyndin er, að Evrópusamfélagið skaðar okkur síður, ef við erum aðilar, en ekki utangarðsmenn.

Jónas Kristjánsson

DV