Lífsstíll nútímans

Greinar

Þeir ákveðnustu láta ekki á sig fá, þótt yfir landið fari ein dýpsta lægð í manna minnum. Þeir klæða sig við hæfi og fara út að ganga eða skokka eins og þeir eru vanir. Aðrir haga seglum eftir vindi og fara frekar í sund þann daginn. Þetta eru hinir nýju Íslendingar.

Heilsurækt á ört vaxandi gengi að fagna hér á landi. Skokkarar á gangstéttum eru auðsæ mælistika á þessa ánægjulegu þróun, sem er smám saman að breyta hvellisjúkri kyrrsetuþjóð í heilbrigða sportþjóð, sem gætir betra jafnvægis í lífi sínu en áður tíðkaðist.

Um leið og veður lægir leggja bílalestir af stað úr þéttbýli í skíðalöndin. Þúsundir manna velja fremur að taka þátt í skemmtilegri og erfiðri íþrótt heldur en að kúra heima í sófa að glápa á íþróttir annarra. Þetta er virkur lífsstíll, sem leysir hinn óvirka af hólmi.

Aukinnar heilsuræktar sér ekki aðeins stað í auknum almenningsíþróttum. Tóbaksnotkun hefur minnkað svo, að því stigi hefur verið náð, að tóbaksneytendur eru orðnir að minnihlutahópi, sem verður að sæta auknum takmörkunum af hálfu hinna, sem lifa heilbrigðu lífi.

Enn er þó ástandið þannig, að kostnaður ríkisins af tóbaksneyzlu landsmanna er talinn meiri en tekjur þess, samkvæmt athugun, sem nýlega var birt. Það bendir til, að töluvert sé enn í land og að enn verði að þrengja kosti þeirra, sem eru háðir þessari tegund eiturs.

Því miður verður hinnar nýju hugsunar ekki mikið vart í umgengni við dýrasta eitrið hér á landi. Það er áfengið, sem er meginorsök lagabrota, slysa, fjárhagstjóns, félagsvandræða og sálrænna truflana. Hallærislegir drykkjusiðir eru enn við lýði hjá háum og lágum.

Útlendingar eru enn að furða sig á, að íslenzkar helgar skuli einkennast af gargandi fólki, sem hvert slefar í eyru annars á mannamótum og af stöðugum ferðum lögreglumanna í heimahús til að reyna að stilla til friðar með fólki, sem stundar íslenzka drykkjusiði.

Þótt þúsundir manna hafi hætt þessarri undirgefni við Bakkus og tekið upp heilbrigðari lífshætti, hafa engin straumhvörf orðið með þjóðinni á þessu sviði. Það þykir ennþá fínt hjá unga fólkinu að missa ráð og rænu og verða að slyttislegum bjánum á almannafæri.

Betri árangur hefur náðst í mataræði. Fiskbúðir og bakarí eru betri en nokkru sinni fyrr og njóta vaxandi viðskipta. Góð fordæmi eru gefin í veitingahúsum, sem mörg hver bjóða mjög girnilegan og hollan mat á tiltölulega sanngjörnu verði miðað við íslenzkar aðstæður.

Heilsufæði og náttúrufæði af ýmsu tagi nýtur vaxandi vinsælda. Fólk borðar fjölbreyttari mat og gætir betra jafnvægis í neyzlunni. Grænmeti og ávextir eru vaxandi þáttur í fæðinu. Um leið minnkar hluti feitmetis af ýmsu tagi, sem áður var of umfangsmikill.

Að vísu skiptir nokkuð í tvö horn á þessu sviði. Annars vegar sést þessi þróun í átt til heilbrigði og hins vegar virðist ekki fækka þeim, sem nærast að miklu leyti á ruslfæði af ýmsu tagi, svo sem djúpsteiktum kartöflum og unnum kjötvörum á borð við fars.

Alvarlegast er þó, að ekki hefur tekizt að hnekkja óhóflegri sykurnotkun okkar, sem er mun meiri en nokkurrar annarrar þjóðar. Þessi neyzla er svo mikil, að hún hlýtur að stuðla að slæmri heilsu og útgjöldum til heilbrigðismála á sama hátt og áfengi og tóbak.

Í heild hafa lífshættir okkar breytzt til batnaðar. Dæmin, sem hér hafa verið rakin, benda til, að okkur miði áfram eftir veginum í átt til lífsstíls nútímans.

Jónas Kristjánsson

DV