Síðbúið fylgishrun

Greinar

Kjósendur hafa skyndilega glatað svo mjög trú á Sjálfstæðisflokkinn, að fylgi hans er komið niður fyrir Framsóknarflokkinn og Alþýðubandalagið. Eftir næstum stöðugt 31-33% fylgi í heilt ár, alveg fram í síðasta nóvember, er flokkurinn nú kominn niður í 20% fylgi.

Skýringar á þessu einstæða fylgishruni er aðeins að hluta að leita í baráttunni um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, sem hefur einkennt stjórnmálaumræðu tveggja síðustu mánaða. Á þessum tíma hefur andstaða heldur vaxið meðal fólks við þetta umdeilda mál.

Ef þetta væri stóra skýringin, ætti Alþýðuflokkurinn að deila fylgishruninu með Sjálfstæðisflokknum, því að utanríkisráðherra hefur nánast gert sig að persónugervingi Evrópska efnahagssvæðisins. Alþýðuflokkurinn heldur þó sínu 13% fylgi í skoðanakönnuninni.

Fremur er að leita skýringar á fylgishruninu í efnahags- og fjármálaaðgerðum ríkisstjórnarinnar í tengslum við ríkisfjárlög og áramót. Þær tengjast mest forsætisráðherra og fjármálaráðherra, sem koma úr röðum Sjálfstæðisflokksins og eru málsvarar aðgerðanna.

Að hluta getur fylgishrun Sjálfstæðisflokksins byggzt á, að kjósendur telji hann vera merkisbera aðgerða ríkisstjórnarinnar á síðustu tveimur mánuðum og líti á Alþýðuflokkinn sem aukaatriði dæmisins. Alténd er ljóst, að þessar aðgerðir njóta einskis trausts.

Hugmyndafræði hins sterka hefur ekki hljómgrunn með þjóðinni um þessar mundir. Kjósendum ofbýður, að ríkisstjórnin skuli senda reikningana næstum óskipta til þeirra, sem minnst mega sín, aldraðra og sjúkra, skólafólks og atvinnulausra, foreldra og barna.

Sá grunur er að læðast að þjóðinni, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins séu í álögum þeirrar dólgaútgáfu markaðsstefnunnar, sem telur nauðsynlegt að nota atvinnuleysi til þess að draga úr kjarki fólks til mótþróa gegn lífskjaraskerðingu langt umfram aflasamdráttinn.

Að hluta hlýtur hrunið einnig að vera tengt vali formanns og þingflokks sjálfstæðismanna á ráðherrum sínum, þótt það sé raunar eldra mál. En gömul reynsla er fyrir, að ný korn gera ekki annað en að fylla mæli, sem áður var að fyllast í kyrrþey af fyrri kornum.

Ekki er hægt að segja, að ráðherralið Sjálfstæðisflokksins efli kjark með þjóðinni. Minni háttar ráðherrar hafa meira eða minna týnzt, enda vafasamt, að þingflokkurinn hafi gert flokknum eða þjóðinni greiða með því að velja þá til starfa, sem þeir virðast ekki ráða við.

Svo að segja daglega sést fjármálaráðherra þylja svipbrigðalaust í sjónvarpi gamlar klisjur og torskilin heilræði. Hann er eins og kennari, sem hefur misst samband við bekkinn, en heldur áfram að tala af gömlum vana og án nokkurs votts af innri sannfæringu.

Forsætisráðherra hefur glatað sjálfstrausti og eldmóði borgarstjórans. Hann er flóttalegur og sannfæringarsnauður í sjónvarpi. Þar að auki virðist hann upptekinn af þeirri hugsun, að hann þurfi að jafna sakir við hina og þessa, sem hann telur hafa gert sér skráveifu.

Það er ekki gott fyrir forustuflokk ríkisstjórnar að hafa á oddinum ráðherra, sem ekki geisla frá sér trú á málstaðinn, heldur endurspegla uppgjöf og ráðleysi, og hafa þar á ofan ekki frambærilegan mannskap til að skipa sómasamlega sum hin óæðri ráðherraembætti.

Fylgishrunið stafar sumpart af mönnum og sumpart af málefnum. Ýmsar forsendur hafa hlaðizt upp í kyrrþey, en mælirinn fylltist ekki fyrr en um áramótin.

Jónas Kristjánsson

DV