Þrenns konar siðgæði

Greinar

Að undirlagi vesturveldanna hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ýtt heildarsamtökum ríkja heims út á hála braut siðleysis í meðferð herskárra ríkja, sem hafa hrifsað land og framið stríðsglæpi. Sameinuðu þjóðirnar hafa orðið berar að þrenns konar siðgæði í vetur.

Stjórn Saddams Hussein í Írak hefur verið með margvísleg undanbrögð og gert lítils háttar tilraunir til að brjóta skilmála Öryggisráðsins. Einkum felst þetta í tilraunum til að hefta ferðir alþjóðlegra eftirlitsmanna og í ögrandi flugi hervéla á bönnuðum loftsvæðum Íraks.

Stjórn Bush Bandaríkjaforseta stendur fyrir loftárásum á Írak til að refsa fyrir þessi undanbrögð. Loftárásirnar hafa lítið hernaðargildi, en hafa þjappað Írökum saman til fylgis við Saddam Hussein og glæpaflokk hans. Er hann nú traustari í sessi en nokkru sinni fyrr.

Á sama tíma stendur Bandaríkjastjórn í vegi fyrir, að Sameinuðu þjóðirnar grípi til aðgerða gegn ríki, sem stundar daglega stríðsglæpi. Það er Ísrael, sem hefur þverbrotið alþjóðasamninga um meðferð fólks á hernumdum svæðum og á frekar skilið loftárásir en Írak.

Annan hvern dag skjóta hermenn og borgarar Ísraels einhvern til bana á hernumdu svæðunum og vikulega eru framin morð af hermönnum, sem dulbúa sig sem Palestínumenn. Allt Ísraelsríki, stofnanir þess og þjóðfélag er gegnsýrt af stríðsglæpum herraþjóðar.

Því miður er kominn til valda í Bandaríkjunum forseti, sem er ákafari í stuðningi við það ríki, sem mestum vandræðum hefur valdið í Miðausturlöndum og sem mestum vandræðum á eftir að valda þar. Bill Clinton er einn af aðdáendum hryðjuverkaríkisins Ísraels.

Bandaríkin, Bretland og Frakkland beita svo þriðju tegund siðgæðis í svokallaðri málamiðlun í Bosníu, sem felst í að verðlauna herraþjóðina Serba fyrir innrás í Bosníu og svívirðilegustu stríðsglæpi í Evrópu í nærri hálfa öld. Þessi afstaða er gersamlega óskiljanleg.

Margsinnis hafa verið leidd rök að því, að verðlaunaveitingar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til handa Serbíu munu hafa hættuleg áhrif á alla þá aðila í Austur-Evrópu og fyrrum Sovétríkjunum, sem bíða eftir tækifæri til að hefja þjóðahreinsanir og landvinninga.

Þar á ofan sker í augu, að Bandaríkin, Bretland og Frakkland skuli af minnsta tilefni efna til loftárása á Írak, en láta undir höfuð leggjast að hefja loftárásir á hernaðarlega mikilvæga staði í Serbíu, sem er mesti árásar- og stríðsglæpaaðili heims um þessar mundir.

Með þessu eru Bandaríkin, Bretland og Frakkland að eyðileggja Sameinuðu þjóðirnar. Með því að ráðast á Írak, láta Ísrael í friði og verðlauna Serbíu eru þessi forusturíki Vesturlanda að rústa siðferðilegan grundvöll Sameinuðu þjóðanna og einkum Öryggisráðs þeirra.

Erfitt er að taka mark á þessum alþjóðastofnunum eftir að umboðsmenn þeirra, Cyrus Vance og David Owen, hafa knúið fram niðurstöðu, sem í fyrsta lagi þverbrýtur grundvallaratriði í stofnskrá og sáttmála Sameinuðu þjóðanna og í öðru lagi heldur ekki vatni.

Vont var, að kalda stríðið skyldi gera Sameinuðu þjóðirnar að leikvelli vanheilags bandalags harðstjóra kommúnismans, íslams og þriðja heimsins. Verra er, að eftir lok kalda stríðsins skuli stofnunin verða að leikvelli þrenns konar siðgæðis af hálfu vesturveldanna.

Hér eftir verður ekki hægt að treysta Öryggisráðinu eða Sameinuðu þjóðunum til að standa vörð um helztu grundvallaratriði, sem varða framtíð mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV