Herópin eru verklag

Greinar

Vinnufriður getur að mestu haldizt í vetur, þótt talsmenn ríkisstjórnarinnar og samtaka launafólks láti ófriðlega um þessar mundir. Báðir aðilar hafa hag af friðsamlegri lausn deiluefna. Sama er að segja um þriðja aðilann, samtök vinnuveitenda, sem hafa hægt um sig.

Stríðsyfirlýsingar eru ekki fyllilega marktækur mælikvarði á horfurnar. Ríkisstjórnin hefur það verklag að ganga út á yztu nöf til að ná samningsaðstöðu og láta síðan draga sig þaðan með sem minnstum eftirgjöfum af sinni hálfu og sem mestum feginleik gagnaðila.

Þetta verklag tíðkaðist löngum hjá samtökum launafólks, sem settu fram háar kröfur til að auðveldara yrði að fá frið um þann hluta, sem ætlunin var að ná fram. Þetta gat gengið upp, þangað til mótaðilar og umhverfið áttuðu sig á, að þetta var bara verklag, ekki veruleiki.

Samtök vinnuveitenda og launafólks hafa í nokkur ár beitt hófsamara verklagi, sem hefur einkennzt fremur af samstarfi en ágreiningi. Þetta gekk svo langt, að stundum komu þau sameiginlega fram sem þrýstihópur gagnvart ríkisvaldinu til að framleiða þjóðarsátt.

Fólk hefur búið svo lengi við þetta hálfgerða bræðralag samtaka launafólks og vinnuveitenda, að það fær áhyggjur af framvindu mála, þegar ráðherrar og ráðamenn launafólks eru með groddalegar yfirlýsingar um, að barizt verði til sigurs fyrir málstaðinn.

Talsmenn samtaka vinnuveitenda hafa að mestu haldið sig utan við orrahríðina, en hafa þó orðið að gera tilraunir til misheppnaðra útskýringa á því bragði sumra vinnuveitenda að nota atvinnuleysisvofuna til að segja fólki upp og ráða það síðan á lakari kjörum.

Ljóst er, að óttinn við atvinnuleysi hefur valdið því, að víða hefur launafólk talið sér nauðsynlegt að gefa eftir í ýmsum atriðum, einkum hlunnindum og aukatekjum, til að halda vinnu og stundum raunar til að hjálpa fyrirtækinu til að lifa af erfiða tíma.

Þessi lífskjaraskerðing bætist við skerðingu vegna aukinnar skattheimtu og minnkaðrar þjónustu hins opinbera og skerðingu vegna atvinnumissis. Þannig hafa lífskjörin í heild skerzt svo mikið, að skiljanlegt er, að talsmenn samtaka launafólks láti ófriðlega.

Kröfurnar beinast fremur að ríkisstjórninni en samtökum vinnuveitenda. Menn vilja, að kaupmáttur hinna lægst launuðu verði aukinn með aðgerðum hins opinbera; að ríkið taki lán til að framleiða atvinnu; og að gefið verði eftir af niðurskurði velferðarkerfisins.

Af efnahagsástæðum verður fyrirstaða ríkisstjórnarinnar hörðust gegn miðleiðinni. Opinber framleiðsla á atvinnu er lítið annað en dulbúningur atvinnuleysis og hefur lítil varanleg áhrif. Og lántaka í því skyni skapar ekki arð til að standa undir endurgreiðslu.

Með góðum vilja ætti að vera auðveldara að finna samkomulagsfleti á hinum leiðunum tveimur. Þær fela þó í sér, að ríkisstjórnin verður að leita nýrra leiða í sparnaði í stað niðurskurðar á velferð. Vegna margvíslegra sérhagsmuna mun hún verða treg til þess.

Mest sker í augun, að ríkisstjórnin skuli halda fullum dampi á ríkisrekstri hefðbundins landbúnaðar, sem kostar skattgreiðendur níu milljarða á ári og neytendur tólf milljarða þar á ofan. Á þessu sviði einu er meira en nóg svigrúm til að kaupa frið á vinnumarkaði.

Ástæðulaust er að vanmeta getu ráðamanna ríkis og samtaka vinnumarkaðarins til að ná samkomulagi, sem gerir þeim kleift að halda sér fast í stólunum.

Jónas Kristjánsson

DV