Þúsund rósir blómstri

Greinar

Þótt tuttugu þúsund ný störf, sem þurfa að verða til hér á landi fram að næstu aldamótum, samsvari fjörutíu nýjum álverum, er ekki þar með sagt, að rétt sé að leysa verkefnið með því að reisa fjörutíu álver. Ný álver eru ekki rétta leiðin til að auka atvinnu.

Álver og önnur stórfyrirtæki í orkufrekum iðnaði eru mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap, ekki vegna atvinnuaukningar eða til að draga úr atvinnuleysi, heldur vegna þess að þau fela í sér stækkun þjóðarbúsins og fleiri stoðir undir efnahagslífi og vöruútflutningi okkar.

Til þess að stóriðja þjóni hlutverkinu, verður hún að vera reist af erlendum peningum, sem hvorki íslenzka ríkið né íslenzkir aðilar þurfi að fá að láni í útlöndum. Og hún þarf að gera langtímasamning, sem tryggi fjármögnun orkuvera, er reisa þarf vegna stóriðjunnar.

Stóriðja má ekki trufla innlendan peningamarkað, meðal annars af því að það mundi hækka vextina, sem þegar eru háir vegna fjármagnsskorts. Hún má ekki heldur auka skuldabyrði í útlöndum umfram það, sem svarar langtímasamningum stóriðjunnar um orkukaup.

Atvinnuleysi hefur skyndilega tekið við af fullri atvinnu. Í stað stóriðju, sem skapar sárafá störf á hverjar hundrað milljónir króna, mun áherzlan beinast að smáum verkefnum, þar sem nokkur störf verða til fyrir hverja milljón króna í fjárfestingu og lítil vaxtagjöld.

Reynslan segir okkur líka, að erfitt er að búa til atvinnu með opinberu handafli. Við þekkjum sjálf, að forgangsverkefni hins opinbera, allt frá hefðbundnum landbúnaði yfir í laxeldi og loðdýrarækt, hafa reynzt erfið í framkvæmd og glatað mörgum milljörðum króna.

Opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, geta hins vegar reynt að búa til jarðveg, þar sem ný atvinnutækifæri spretta upp með lítilli fjárfestingu og léttri vaxtabyrði. Þessi leið hefur reynzt árangursríkust hjá þjóðum, sem lengsta reynslu hafa af baráttu gegn atvinnuleysi.

Einna hæst ber menntun og endurmenntun. Gefa þarf atvinnulausum ókeypis tækifæri til að mennta sig. Til dæmis erlend tungumál, svo að þeir eigi auðveldara með að afla sérþekkingar í útlöndum. Einnig bókhald og rekstrartækni fyrir bílskúrs- og heimilisiðnað.

Gott er, að opinberir aðilar hafi milligöngu um að útvega ódýrt húsnæði fyrir tilraunir til smáiðnaðar. Eins og í endurmenntuninni er mikilvægt, að ráðamenn séu ekki með skoðanir á, hvaða sérsvið séu vænleg og hvaða ekki, því að þær skoðanir reynast ætíð rangar.

Einna mikilvægast er að lyfta þjóðinni upp úr svartsýni og bölmóði. Atvinnuleysið stafar nefnilega ekki af skorti á tækifærum, heldur af því, að þjóðin er búin að bíta sig of fast í örfáar atvinnugreinar, sem ekki standa lengur einar undir því að útvega öllum næga vinnu.

Atvinnuaukningin fram að aldamótum mun nærri eingöngu felast í stofnun lítilla fyrirtækja með innan við tíu starfsmenn. Hún felst í þúsundum slíkra fyrirtækja, en ekki í tuttugu stóriðjuverum. Til að stofna svo mörg lífvænleg fyrirtæki þarf framtak og þekkingu.

Framtak fæst með því, að fólk leggist ekki í svartsýni og tómlæti, heldur reyni að búa sjálft til tækifæri handa sér. Til þess þarf áræði og hugvit, en opinberir aðilar geta hjálpað með því að útvega ókeypis endurmenntun og ódýrt húsnæði, sem fæst úr gjaldþrotaskiptum.

Ekki dugar að framleiða atvinnu með nokkrum stórum patentlausnum. Baráttan nær árangri í þúsundum ódýrra smálausna í hugviti, þekkingu og sölutækni.

Jónas Kristjánsson

DV