Eignarhald á stólum

Greinar

Sjálfsagt þykir, að sá ráðherra Alþýðuflokksins, sem veit sitt af hverju um hagmál, verði aðalbankastjóri Seðlabankans, er Jóhannes Nordal hættir í sumar. Alþýðuflokkurinn er talinn eiga þetta embætti á sama hátt og flokkarnir skipta með sér herfangi á ýmsa vegu.

Svo traust er eignarhald núverandi bankaráðherra á Seðlabankastöðunni, að talað er um, að sá bankastjóri Landsbankans, sem situr í stjórasæti Alþýðuflokksins, flytji sig og vermi sætið um sinn í Seðlabankanum, svo að bankaráðherrann geti nýtt sér allt kjörtímabilið.

Aðrir ráðherrar þurfa ekki heldur að kvíða atvinnuleysi, þótt dagar þeirra séu senn taldir í ráðherraembætti. Umhverfisráðherra er meira að segja sagður eiga kost á sendiherrastöðu í samræmi við þá hefð, að utanríkisþjónustan sé leikvöllur aflóga pólitíkusa.

Sá þingmaður Alþýðuflokksins, sem næst gengur ráðherrum að vegsemd, formaður fjárlaganefndar Alþingis, er talinn eiga fyrsta ráðherraembætti, sem losnar hjá Alþýðuflokknum. Það flækir málið, að hann er líka talinn eiga forstjórastól Tryggingastofnunarinnar.

Það eru ekki vextirnir eða launin eða tómahljóð ríkiskassans, sem pólitíkusar landsins eru að hugsa um á þorranum. Það eru hrókeringar í ráðherrastólum og öðrum valdastólum þjóðfélagsins, er flokkar og pólitíkusar telja sig eiga eins og hvert annað herfang.

Hin sérstæða stjórnmálaspilling á Íslandi er orðin svo rótgróin, að framvinda lýðræðishefðar í nánasta umhverfi þjóðarinnar hefur engin áhrif inn fyrir landsteinana. Íslenzkir pólitíkusar halda áfram eins og alltaf áður að haga sér eins og ránsgreifar frá miðöldum.

Sendiherraembætti og bankastjórastólar, forstjórasófar ríkisins og stofnana í tengslum við ríkið, eru þétt setnir aflóga stjórnmálamönnum, sem taldir eru þurfa að komast í róleg sæti að loknu erilsömu snatti fyrir kjósendur og annarri byggðastefnu þeirra á Alþingi.

Þetta er ein veigameiri skýringanna á, hvers vegna íslenzkir embættismenn eru latir og lélegir. Þeir eru ekki á framabraut í þjóðfélaginu, heldur eru þeir þegar seztir í helgan stein að njóta ávaxta af herfangi stjórnmálanna. Þeir eru eins konar fyrrverandi fyrirbæri.

Þetta séríslenzka ástand fengi ekki staðizt, ef þjóðin væri andvíg kerfinu. Þjóðin er hins vegar sumpart fylgjandi spillingunni og þolir hana sumpart, af því að grundvallarhefðir borgaralegrar hugsunar hafa aldrei fengið tækifæri til að skjóta rótum og blómstra hér á landi.

Hinn dæmigerði Íslendingur hefur þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfur. Ef menn bera í brjósti neikvæðar hugsanir í garð spillingar, er frekar um öfund að ræða en réttláta, borgaralega hneykslun. Í þessum jarðvegi þrífast pólitíkusarnir.

Hinn dæmigerði Íslendingur metur þingmenn eftir vegaspottum, sem þeir geta skaffað, og ráðherra eftir flugvöllum, sem þeir geta skaffað. Þess vegna hafa helztu þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra verið í hávegum hafðir í kjördæminu sem samgönguráðherrar.

Þessi aðferð við rekstur þjóðfélags er afar dýr, því að verðmæti renna hvarvetna út í sandinn. Þetta hefur meðal annars leitt yfir okkur kreppuna, sem nú ríður húsum. Hún stafar ekki nema að litlum hluta af þriggja milljarða samdrætti í útflutningstekjum af sjávarafla.

Þegar ekki þykir lengur í lagi, að pólitíkus eigi herfang í Seðlabankastól, má hafa það til marks um, að við séum byrjuð að feta okkur út úr spillingu og kreppu.

Jónas Kristjánsson

DV