Ríkisstjórnin fylgir þeim ráðum, að heppilegt sé að hafa nokkurt atvinnuleysi í landinu til þess að fólk haldi betur á spöðunum í vinnunni og geri ekki kröfur um óbreytt lífskjör. Hagfræðin segir, að þetta sé ein auðveldasta og öruggasta leiðin í baráttunni við verðbólguna.
Þetta má ekki segja opinberlega. Til að breiða yfir ábyrgð stjórnvalda er atvinnuleysið kennt utanaðkomandi náttúruafli, sem kallað er kreppa. Hún er sögð stafa af samdrætti útflutningstekna af sjávarútvegi, sem nemur þó ekki nema um þremur milljörðum króna á ári.
Til samanburðar má nefna, að hinn hefðbundni landbúnaður kostar skattgreiðendur níu milljarða á fjárlögum þessa árs, fyrir utan tólf milljarða, sem hann kostar neytendur á þessu ári. Kreppan er blóraböggull upp á 1% af 300 milljarða króna þjóðarframleiðslu á þessu ári.
Þriggja milljarða vasabrotskreppa, fimm prósenta atvinnuleysi og slæmt fordæmi Færeyinga er óspart notað til að gefa þjóðfélaginu frið fyrir kröfum um hærri taxtalaun og stjórnvöldum þar á ofan frið fyrir kröfum um óbreytta velferðarþjónustu hins opinbera.
Sum áhrifin af þessu eru góð. Íslendingar hafa áreiðanlega fremur gott af auknum aga í störfum. Margir standa sig betur í vinnunni, af því að þeir vilja ekki lenda í hópi þeirra, sem sagt er upp. Þetta eflir þá sem einstaklinga, svo og fyrirtækin og þjóðina í heild.
Samt er atvinnuleysi stórhættulegt hagstjórnartæki. Við sjáum það vel í útlöndum, þar sem lengi hefur verið mikið atvinnuleysi. Langvinnt atvinnuleysi gerir fólk óhæft til að hefja vinnu að nýju, þótt hún bjóðist. Atvinnuleysið verður eins konar lífsstíll fátækrahverfa.
Atvinnumissir er stórfellt persónuáfall. Hann tætir í sundur fjölskyldur, spillir heilsu fólks, veldur stóraukinni misnotkun áfengis og annarra fíkniefna, margfaldar afbrot og tjón. Hann eykur álagið á þjónustu hins opinbera á mörgum sviðum velferðar og löggæzlu.
Atvinnuleysi rífur sjálfan þjóðfélagsvefinn, magnar stéttaskiptingu og ábyrgðarleysi. Það felur auk þess í sér gífurlega sóun á hæfileikum og kunnáttu hinna atvinnulausu. Víðast hvar hefur afar lítið verið gert til að endurhæfa atvinnulaust fólk til nýrra verkefna.
Hagfræðikenningar um gildi atvinnuleysis sem hagstjórnartækis vanmeta eða meta alls ekki þessa þætti. Kostnaðurinn við brotnar persónur og brotin samfélög er miklu meiri en hagurinn, sem fæst af meiri aga og minna röfli. Það er bara erfiðara að mæla hann.
Atvinnuleysið á Íslandi er orðið svo mikið, að það er farið að hafa hin skaðlegu áhrif, sem við höfum séð í útlöndum. Tímabært er, að stjórnvöld halli sér frá trúboðum atvinnuleysis meðal ráðgjafanna, án þess þó að falla fyrir háværum kröfum um atvinnubótavinnu.
Atvinnuleysi skánar lítið, þótt það sé dulbúið sem atvinnubótavinna. Þess vegna er rétt að gjalda varhug við tilraunum nokkurra sveitarfélaga til að komast yfir ríkispeninga undir því yfirskini, að verið sé að útvega fólki vinnu. Aðgerðirnar þurfa að vera varanlegri.
Leggja þarf aukið fé í margs konar kennslu fyrir atvinnulausa, svo að þeir geti haslað sér völl á þenslusviðum, þar sem ríkir full atvinna. Þeir þurfa að koma sér upp fagþekkingu, þekkingu á minni háttar rekstri og fjármálum, svo og þekkingu á mannlegum samskiptum.
Ekki má líta á atvinnuleysi sem nauðsynlegan herkostnað við aðgerðir í efnahagsmálum, heldur sem einn versta framtíðarvanda þjóðarinnar um þessar mundir.
Jónas Kristjánsson
DV