Heiðra skulum við skálkinn

Greinar

Evrópusamfélagið sýndi enn einu sinni rétt eðli sitt í fyrrakvöld, þegar það setti höft á ferskan fisk og ferskar fiskafurðir. Þetta staðfestir það, sem oft hefur verið sagt hér, að Evrópusamfélagið er svo hættulegt umhverfi sínu, að við neyðumst til að ganga í það.

Ef við erum í Samfélaginu, geta íslenzkir sérhagsmuna- og þrýstihópar fengið greiðan aðgang að kerfinu í Bruxelles. Fyrir utan það erum við hins vegar hluti af umhverfi þess og erum háðir alls konar duttlungum og frekju sérhagsmuna- og þrýstihópa innan þess.

Í stórum dráttum má segja, að kerfi Evrópusamfélagsins sé eins konar risavaxið landbúnaðarráðuneyti að íslenzkum hætti. Það er sett á stofn til að vernda rótgróna, vel skipulagða og hávaðasama sérhagsmuni gegn almannahagsmunum og sviptingum markaðslögmála.

Rætur Evrópusamfélagsins liggja í Evrópska kola- og stálsambandinu, sem stofnað var eftir stríð til að halda uppi verði í Evrópu og hindra samkeppni frá öðrum heimsálfum. Samfélagið hefur víkkað verkefnið og gætir nú evrópskra sérhagsmuna á breiðri víglínu.

Höfuðmarkmið Samfélagsins er að vernda hin stóru fáokunarfyrirtæki Evrópu gegn japönskum og bandarískum keppinautum. Annað í röð markmiðanna er að vernda hávaðasama sérhagsmuni á sama hátt. Allir þessir aðilar mynda vel skipulagða þrýstihópa .

Franskir sjómenn hafa stælt eftir frönskum bændum þá árangursríku aðferð að haga sér eins og óþæg vandræðabörn, sturta mat á götur og rústa markaðsskála. Þeir ganga berserksgang, unz þeim er hlýtt. Þess vegna er nú búið að setja lágmarksverð á ferskfisk.

Alveg eins og á Íslandi eru neytendur ekki spurðir neins. Kerfinu í Bruxelles er hjartanlega sama, hvort þeir borga meira eða minna fyrir fisk. Aðalatriðið er að friða hávaðahagsmuni. Það verður gert aftur og aftur, þegar þrýstihóparnir færa sig upp á skaftið.

Næst þurfa franskir sjómenn ef til vill meiri vernd. Ef til vill verða það þó fremur fiskvinnslustöðvarnar, sem telja sig þurfa meiri vernd gegn umhverfi Evrópusamfélagsins. Í öllum tilvikum verður í skyndingu breytt þeim aðstæðum, sem íslenzkur sjávarútvegur býr við.

Sjálfsafgreiðsla þrýstihópa er og verður mikil í sjávarútvegi, sem í Evrópusamfélaginu er talinn þurfa svipaða gjörgæzlu og landbúnaður. Við getum á þann einn hátt varizt kárínum að vera ekki hluti af umhverfi Samfélagsins, heldur hluti af innra þrýstihópakerfi þess.

Sem aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu fáum við greiðari aðgang að evrópskum markaði. Við náum hins vegar því ekki að verða innangarðs á vandræðabarnaheimili þrýstihópanna. Við þurfum að ganga í sjálft Evrópusamfélagið til að verða gjaldgengir á því sviði.

Pólitískar skyldur vegna aðildar verða minni en áður var reiknað með. Bretum og einkum Dönum hefur tekizt að draga allan mátt úr stuðningsmönnum aukinnar samvinnu á sviði stjórnmála, utanríkismála og varnarmála. Fjármál og efnahagsmál verða áfram aðalmálin.

Til þess að fá mjúka lendingu í Evrópusamfélaginu þurfum við sem allra fyrst að taka upp þráðinn, svo að við getum náð samfloti með þeim ríkjum Fríverzlunarsamtakanna, sem hafa sótt um aðild að Samfélaginu. Það er sá hópur ríkja, sem fær ódýrastan aðgang.

Við eigum að gerast aðilar að Evrópusamfélaginu, svo að það skaði okkur ekki. Við höfum sérhagsmuni af að vera innan kerfis, sem er hættulegt umhverfi sínu.

Jónas Kristjánsson

DV