Þegar bankakerfi landsins þarf að nota 6,5 milljarða á hverju ári til að bæta sér upp glötuð útlán, fara bankarnir annaðhvort einfaldlega á höfuðið eða þeir auka svo bilið milli innvaxta og útvaxta, að þeir geti náð þessum milljörðum af skilamönnum í hópi lántakenda.
Í fyrra töldu stjórnendur bankanna, að þeir þyrftu að leggja 6,5 milljarða króna í afskriftasjóði. Þegar þeir eru gagnrýndir fyrir of mikið vaxtabil og þar af leiðandi of háa útlánavexti, vísa þeir til þessarar þarfar og segjast raunar sízt hafa gengið of langt í vaxtabili.
Ekki er lengur deilt um, að bæði nafnvextir og raunvextir séu of háir hér á landi og mun hærri en í sambærilegum löndum. Til skamms tíma var þenslu kennt um þetta. Eftirspurn peninga væri miklu meiri en framboðið og þessi munur væri óvenjulega mikill hér á landi.
Nú hefur stjórnvöldum tekizt að framleiða svo mikla sálarkreppu í atvinnulífinu, að athafnakjarkur fólks hefur minnkað að marki. Þar af leiðir, að eftirspurn peninga er lítil af hálfu atvinnulífs, húsbyggjenda og annarra einstaklinga. Fólk þorir ekki að skulda.
Ríkið hefur lengst af verið fremst í flokki þeirra, sem halda uppi eftirspurn peninga og þar af leiðandi háum vöxtum. Óvissa ríkir um áform ríkisins á þessu sviði. Ástæða er til að óttast opinberar lántökur til atvinnubótavinnu vegna vaxandi þrýstings hagsmunaaðila.
Um nokkurt skeið hafa menn verið nokkurn veginn sammála um, að mikil fyrirferð hins opinbera á lánamarkaði haldi uppi háum vöxtum. Af þessu leiðir, að horft hefur verið til umsvifa ríkisins, þegar talað er um nauðsyn þess, að vextir komist niður úr himinhæðum.
Nú er komið í ljós, að ríkið er bara annar af tveimur stórum sökudólgum í málinu. Hinn aðilinn er bankakerfið, sem hefur framleitt 6,5 milljarða afskriftaþörf á ári með ógætilegri útlánastefnu á liðnum árum. Það er er því ekki nóg, að ríkið dragi saman seglin.
Í bankakerfinu hafa notið forgangs hefðbundin gæludýr og nokkur ný gæluverkefni. Þetta byggist að mestu á, að stjórnendur bankanna hafa ekki starfað eins og bankamenn, heldur eins og stjórnmálamenn. Enda eru margir þeirra afdankaðir ráðherrar eyðsluráðuneyta.
Hin öflugu tengsl stjórnmála og banka hafa framleitt sérkennilegt bankakerfi, sem er svo vanhæft til starfa, að það þarf að leggja 6,5 milljarða til hliðar á ári til að mæta vitlausum útlánum. Þessi spilltu tengsli þarf að rjúfa, svo að heilbrigð viðhorf fái að ráða í bönkum.
Bezta lækningin væri að fá útlenda banka, sem ekki eru tengdir hinu séríslenzka útlánarugli, til að hefja útibúsrekstur hér á landi. Slík útibú ættu að geta boðið minna vaxtabil en hér tíðkast, það er að segja peningaeigendum hærri vexti og skuldunautum lægri vexti.
Það er fáokunin, sem hefur gert bönkunum kleift að varpa afleiðingum af röngum bankastjórum og bankaráðum yfir á herðar fyrirtækja og einstaklinga. Ef samkeppni að utan kæmi til sögunnar, yrðu bankarnir að hætta ruglinu til að standast samkeppni við útlendinga.
Athyglisvert er, að bankastjórar eru sperrtir vel, jafnvel þótt 6,5 milljarða afskriftaþörf hafi sýnt, að flestir eru þeir algerlega vanhæfir til starfa. Þeir telja sig ekki bera neina ábyrgð, alveg eins og stjórnmálamenn axla enga ábyrgð af sínu peningasukki og sínum glæfrum.
Einnig er athyglisvert, að þetta pólitíska kerfi ábyrgðarleysis telur bankastjóra eiga skilið sömu ráðherrakjör og helztu sukkarar og fjárglæframenn ríkisvaldsins.
Jónas Kristjánsson
DV